Skírnir - 01.01.1981, Síða 27
SKÍRNIR
HEIMSPEKI OG FRASAGNIR
25
sem blasa við og brýnt er að sinna, ef vinna á úr þeirri tilgátu
minni eða kenningu að heimspekin þurfi að taka miklu meira
mið af frásögnum og frásagnarhugsun en hún hefur gert til
þessa, beita í senn huglægum og hlutlægum viðhorfum.
Ég mun því nú að lokum aðeins reyna að útlista með einu
dæmi hvers konar heimspeki það er sem ég er að lialda fram
eða mæla með.
Dialektik er eitt þeirra heimspekiorða sem enn hefur ekki
fundist viðeigandi orð fyrir á íslensku og er kannski þess vegna
oft hrapallega misskilið eða rangtúlkað. Einn mikilvægasti skiln-
ingur orðsins er þó afar einfaldur; díalektík er það að leggja mál
fyrir á tvo ólíka og gjarnan öndverða vegu. Díalektísk heimspeki
eða díalektísk hugsun er fólgin í því að reyna að sjá hið sama frá
tveimur sjónarmiðum eða m.ö.o. díalektísk hugsun er tví-sýn
hugsun, hugsun sem lítur á málin frá tveimur hliðum. Venju-
lega merkingu orðanna tvísýnn og tvísýni má auðveldlega hugsa
í samræmi við þetta. Tvísýnt er það sem getur brugðið til beggja
vona, tvísýni merkir óvissu um úrslit, árangur eða niðurstöðu:
kosningar, niðurstöður rannsókna, veðurhorfur geta verið tví-
sýnar, svo að dæmi séu nefnd af handahófi. Nú hafa öll helstu
vandamál og viðfangsefni heimspekinnar frá fornu fari verið
tvísýn í þessum skilningi og eru það enn. Það er ævinlega tví-
sýnt um niðurstöður í heimspeki og auk þess orka þær flestar
tvímælis. Það er sjálf krafa heimspekinnar um vissu, um endan-
legan sannleika, um algerlega fullnægjandi rök fyrir kenningum
okkar og skoðunum, sem veldur þessari óvissu, þessari tvísýni
um sjálf viðfangsefni eða verkefni heimspekinnar. En um leið
hafa ýmsir heimspekingar kunnað að nýta sér þessa tvísýni og
reynt að sigrast á henni með því að gera hana að aðferð sinni,
beita tvísýnni hugsun til þess að reyna að komast að réttum,
einsæjum niðurstöðum.
Ég nefni sem dæmi Immanuel Kant í Gagnrýni hreinnar skyn-
semi. Hann vildi leggja giundvöll að frumspeki, þeirri fræði-
grein sem fjallar um tvísýnustu úrlausnarefni mannsandans,
upphaf heimsins, tilveru Guðs, ódauðleika sálarinnar, frelsi vilj-
ans; og þegar hann tekur þessi efni skipulega fyrir þá beitir hann
díalektík, tvísýni6: hann leggur vandamálin fyrir frá tveimur