Skírnir - 01.01.1981, Blaðsíða 33
SKÍRNIR ÞÚ OG ÉG SEM URÐUM ALDREI TIL 31
konar háspekilega tómhyggju á áhrifamikinn hátt.. .“3 Kristinn
E. Andrésson segir í íslenskum nútímabókmenntum: „En þótt
hann geti verið bardagaskáld, er heimspekihneigðin ríkari og
grefur jafnt og þétt undan trú hans á gildi þeirrar baráttu er
liann heyr, og í öðru hverju kvæði fellur hann niður í heilabrot
um heiminn og sjálfan sig.“4 Og Ólafur Jónsson segir í grein í
Dagskrá að Steini látnum: „Steinn Steinarr var fyrst og fremst
heimspekilegt skáld. /.../ tilvera sjálfs hans og rök hennar eru
honum hugstæðust yrkisefni, vandi sem hann veltir fyrir sér all-
an skáldferil sinn.“5
Þótt gagnrýnendum sé þannig tamt að nefna Stein og heim-
speki í sömu andrá (og mörg fleiri dæmi mætti nefna), ræða þeir
fæstir hvaðan Steinn hefur fengið heimspekilegar hugmyndir
sínar eða hvaða stefnu hann er skyldur. Einn gagnrýnenda og
það helsti gagnrýnandi Steins, Kristján Karlsson, kveður þó
fast að orði um rætur heimspekiþanka Steins, einkum í grein í
Nýju Helgafelli 1958: „Gildi mannsins er, í andstæðum skoðað,
það að liann er einskis virði, og Steinn fer æ meir að tala í
nöktum andstæðum, þegar á líður. Tómhyggja er þetta að vísu,
en fyrst og fremst harðsnúin, heimatilbúin sjálfshyggja, sem
stæðist ekki dagsins ljós í prósa.. .“6 Seinna í greininni segir
hann, að Steinn hafi haft „ríka tilhneigingu eða ríkan metnað
til að verða lært og heimspekilegt skáld, þó að svo yrði ekki
vegna þess að ævikjör hans meinuðu honum það, en þó ef til
vill miklu fremur vegna þess að gáfa hans var annars eðlis.“7
Kristján er ekki svona afdráttarlaus í formála að Kvæðasafni
og greinum Steins (1964), en hann hefur ekki skipt um skoðun.
Hann segir þar að heimspeki geti „lagt skáldi upp í hendur
ákveðið hugmyndakerfi“ sem spegli samtímann, en heimspeki
Steins geti það ekki, því hún sé heimatilbúin: „Hún á ekki stoð
í menningarlegri hefð eða hugmyndakerfi.“ (xvii)
Tveir bókmenntafræðingar hafa bent á annan grundvöll að
heimspeki Steins en sjálfshyggju og bölsýni hans sjálfs, að maður
segi ekki naflaskoðun. Sveinn Skorri Höskuldsson talar um að
hjá Steini birtist það endurmat allra gilda sem einkenni verk
ungra skálda síðan í heimsstyrjaldarlok: „Að mínu viti er dýpst-
ur tónn í Ijóðum Steins, þegar hann horfist í augu við algjört