Skírnir - 01.01.1981, Page 34
32 SILJA AÐALSTEINSDÓTTIR SKÍRNIR
tilgangsleysi mannsins, firringu hans og framandleik í heimin-
um. Ekki veit ég, hvert rekja skal upphaf þessarar kenndar, sem
sett hefur dýpra mark en flest annað á evrópskar nútímabók-
menntir. Stundum finnst mér eins og upphaf hennar liggi hjá
Nietzsche með kröfu hans um endurmat allra lífsgilda .. .“8 Síð-
ar nefnir Sveinn þetta „tilgangsleysisheimspeki Steins“ og segir
að hann yrki sig frá henni í Tímanum og vatninu.
Heimir Pálsson tengir Stein í bókmenntasögu sinni við þá
stefnu sem dýpst spor hefur markað á þessari öld ásamt marx-
ismanum, þó með hálfum huga. Heimspeki Steins, segir Heimir,
„stakk reyndar mjög í stúf við þann félagslega skilning sem mörg
skáld samtíðar hans aðhylltust. Hvort sem er um að ræða anga
erlendra heimspekikenninga (í ætt við existentialisma, tilvist-
arstefnu) eða ekki, er augljóst að maðurinn sem einstaklingur
(ekki félagsvera) er settur í miðdepil heimsins.“9
Mig langar að ganga skrefinu lengra en Heimir og fullyrða að
Steinn sé existensíalískur í ljóðum sínum, ekki bara í „Hamlet-
kvæðunum" þótt mest sé gaman að skoða þessa þætti í þeim
heldur að lífsskilningi yfirleitt. Áhugaefni hans eru þau sömu og
existensíalistar hampa: einstaklingurinn og leið hans til þroska
í brotakenndum heimi; hugsunarhátturinn sá sami, að ekkert
sé algilt; lausnir úr tilvistarkreppunni einnig þær sömu. Ég álít
að með því að skoða Ijóð hans í Ijósi tilvistarstefnu fáist mjög
nothæfur lykill að kjarna þeirra — ekki síst þeirra Ijóða sem
þykja myrk eða órökleg.
Nú fer kannski einhver strax að malda í móinn líkt og
Kristján Karlsson og segja að ómenntaður maður eins og Steinn
hafi engar spurnir haft af heimspekistefnu úti í löndum, þess
vegna sé fráleitt að ræða þetta mál frekar. En þá ansa ég því til
að það geri ekki ýkja stórt strik í reikninginn. John Macquarrie,
breskur fræðimaður um tilvistarstefnu, leggur í bók sinni um
hana áherslu á, að rithöfundar geti við ákveðnar sögulegar og
persónulegar aðstæður orðið boðberar existensíalisma án þess
að hafa orðið fyrir beinum áhrifum frá heimspekingum, og
þessa rithöfunda megi telja til stefnunnar ef efnisval þeirra og
úrvinnsla sé í anda hennar.10 Engin leið er fyrir mig að komast
að því hvort Steinn Steinarr hefur lesið eða kynnt sér á annan