Skírnir - 01.01.1981, Side 39
SKÍRNIR ÞÚ OG ÉG SEM URÐUM ALDREI TIL 37
vatn verða þau til einskis gagns. Það má líka tæpa á því á þess-
um stað að í seinni bókum sínum, einkum Tímanum og vatninu,
hvarf Steinn frá hefðbundinni notkun lita og litaði sjálfur bæði
hluti og hugtök. Sérkennilegt við þá breytingu var að hvíti litur-
inn, litur hinnar visnu handar, kom í stað dökkra lita á sorg og
dauða. Hin hvíta fregn skáldsins er eflaust ekki hvít af neinni
tilviljun, hún gæti verið kvíðafull spá þess um framtíð jarðar-
barna, en þau hlusta ekki, sofa bara.
Efinn
Saman við kvíðann fléttast efi Steins um að hann sé í raun og
veru til í existensíalískum skilningi, og ekkert íslenskt skáld
hafði efast um það á undan honum. í mörgum ljóðum lýsir
Steinn hvernig það er að verða ekki það sem í manni býr, verða
ekki fullskapaður einstaklingur. „Heidegger og Kierkegaard
vissu það báðir," segir Philip Mairet í fyrrnefndum formála, „að
maðurinn þráir í angist að finna og vita að hann er til, það er
einmitt undirrót kvíða hans.“14 Það er existensíalistum sameig-
inlegt að álíta, að fyrst sé maðurinn ekkert, „ekki til“, síðan
verði hann það sem hann gerir úr sér. Til þess hafi hann getu
og frelsi, en það kosti erfiði og átök. Sumum mönnum (flestum
mönnum?) tekst aldrei að þroska það sem í þeim býr og skapa
úr sér fullburða einstakling, þeir takast ekki á við erfiðleikana
og verða aldrei til í þessari merkingu. Ákvarðanir mannsins og
athafnir skapa hann, maðurinn er ekkert annað en það sem
hann gerir, segir Sartre — og Steinn segir: „En þjóðin veit, að ég
hefi ekkert gert.“ (125) Þá vitum við hvers virði hann er.
Strax í fyrstu bók Steins má sjá merki efans um að líf hans
sé til nokkurs. Ljóðið Minning endar svona (28):
Var það blekking hugans,
sem huldi sjón minni
helkalda auðnina,
þar sem spor mín liggja,
þar sem lí£ mitt rann út í gljúpan sandinn?
í Ijóðinu Barn (71) má sjá, að jafnvel þótt líkaminn eldist og
hrörni þroskast vitundin ekki — hún veit ekki að hún er til.