Skírnir - 01.01.1981, Page 40
38 SILJA AÐALSTEINSDÓTTIR SKÍRNIR
Mælandi ljóðsins er alltaf sama barnið þótt umhverfið sjái að
ytra borðið stendur ekki í stað:
Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvö hlæjandi börn
gengu fram hjá
og kölluðu:
Gott kvöld, gamli maður,
gott kvöldl
Sama er uppi á teningnum í Etude (100).
Smám saman færist Steinn nær existensíalistum í orðavali, og
í nokkrum ljóðum orðar hann efa sinn beinlínis með orðalagi
þeirra, kallar þetta að vera til eða vera ekki til:
Og veistu það, að þú ert ekki til,
og þetta, sem þú sérð, er skuggi hins liðna.
segir í Svartlist (104). Stundum vill hann trúa því að hann sé til
í verkum sínum í samræmi við orð Sartres sem tilfærð voru hér
að framan. I Tileinkunn segir: „Og ég var aðeins til í mínu
ljóði." (123) En jafnvel ljóðið, verk hans, er ótraustur tilveru-
grundvöllur, t. d. í Vorvísu (135):
Og ljóð mitt ber samskonar
svip og það,
sem ekki er.
Það ljóð Steins sem minnir mest á ýmsa höfuðpaura tilvistar-
stefnunnar að orðavali er Myndlaus í Ferð án fyrirheits (137),
stutt og hnitmiðað ljóð. Eins og víða í seinni bókum Steins er
ófullburða líf tengt hér við að ná ekki að sameinast ástvinu
sinni. Sameinuðum var þeim ætlað að verða annað og meira en
það sem þau urðu hvort í sínu lagi:
Ó, þú og ég, sem urðum aldrei til.
Eitt andartak sem skuggi flökti um vegg
birtist sú mynd, sem okkur ætluð var.
Sem næturgola gári lygnan hyl,
sem glampi kalt og snöggt á hnífsins egg,
sem rauðar varir veiti orðlaust svar.
Ó, fagra mynd, sem okkur báðum bar.