Skírnir - 01.01.1981, Page 48
46 SILJA AÐALSTEINSDÓTTIR SKÍRNIR
Ljóði frá 1932 tjáir Steinn þessa hugmynd (182), þá 24 ára. Hann
segir að sig langi fram í fjallasal, því
Ég átti forðum yndi best hjá þér,
og óskir hjartans barstu í skauti þínu.
En svikull heimur sjónir villti mér,
ég sé það nú i spilltu hjarta mínu.
Hann þráir að hverfa aftur, verða aftur óspilltur, í því er gæfan
ef til vill fólgin og lausnin undan þjáningum og fánýtisórum.
Þar er hið einfalda líf í skauti náttúrunnar, sem líka má sjá t. d.
í Gamalli vísu um vorið (88), kannski hefur það varanlegt gildi.
Samruni manns og náttúru í sátt og friði er hvergi betur sýndur
en í Afturhvarfi (145) þar sem skáldið biður græna jörð og
mjúka, raka mold að fyrirgefa sér gönuhlaupin — og sjálfsagt
naflaskoðunina líka — og viðurkenna skáldið sem hluta af
heildarmyndinni:
Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!
Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.
Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:
Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér!
Löngun Steins til að líma heiminn saman með því að hverfa
aftur heim í sveitina er sönn, en það breytir engu um það að
ljóð hans um þá löngun eru fá og gagnslítil. Heimur hans er
sundurtættur og bara stundarfró að hugsa sér að maður geti
horfið aftur til ímyndaðrar fortíðar og slegið striki yfir nútíðina.
Alvarlegri tilraun til að taka heiminn í sátt og reyna að hugsa
um hann sem heild er í ljóðinu Heimurinn og ég (155). Þar
finnur skáldið til samúðar með öllum mönnum vegna sorglegs
atviks sem hefur hent og lýsir henni af alvöru, varpar henni
ekki frá sér í hálfkæringi.
Ljóðið hefst á lýsingu á ástandi sem „ég“ Ijóðsins hefur búið
við lengi:
Þess minnist ég, að mér og þessum heimi
kom misjafnlega saman fyrr á dögum.
Og beggja mál var blandið seyrnum keimi,
því báðir vissu margt af annars högum.