Skírnir - 01.01.1981, Page 63
SKÍRNIR
EINFARAR OG UTANGARÐSMENN
61
göngu og kross, dóms og sektar. Líf mannsins er „vítistilvera",
„vist í hreinsunareldi“, „via dolorosa“, o. s. frv. Táknmyndir af
þessu tæi setja sterkan svip á verk margra íslenskra höfunda, s. s.
Tliors Vilhjálmssonar. í Fljótt fljótt sagði fuglinn er t. d. að
finna merkilega klausu í þessa veru:
... þá sá ég andlit í skýjunum og hugsaði talar hann nú til mín svo hitt
megi þagna og verði hljótt í víti meðan rödd hans talar til mín og eldbálið
lægir; víti eða var það hreinsunareldurinn, enginn kemst úr víti, í hreins-
unareldinum er von. Von, hrópa ég /.../ en þetta andht sem ég sé í skýjum,
ætlar hann að tala? Ég sé það færast og mynd þess breytist og hverfur .. .13
Guð er horfinn mönnum og goðsvör ekki lengur hugsanleg.
Engu að síður yrkir maðurinn enn þann draum innra með sér
að leitin kunni um síðir að taka enda. Hann vonar þrátt fyrir
allt. Vegna þessa vonarneista líkir skáldið lífinu við hreinsunar-
eld en ekki víti.
Beckett lætur sig ekki dreyma eins og Thor. Fyrir honum er
mannleg tilvera „infernal" vítahringur. Oft tekur hann líkingu
af píslargöngu Krists til að lýsa kringumstæðum mannsins. Tvær
af þekktustu söguhetjum Becketts, Moran og Molly, líkja sér
við Krist berandi krossinn á aftökustað og Krist krossfestan.
Þessi táknmynd hins lirjáða krossbera á píslarveginum er útfærð
á margvíslegan hátt í nútímabókmenntum. Margir rithöfundar
hafa t.d. túlkað lífið sem látlausa krossfestingu, stanslausa pínu
sem Ijúki í tortímingu. Upphaflega táknaði krossfestingin endur-
lausn; í verkum flestra nútímarithöfunda táknar hún ósigur
og dauða.
En hvers vegna er manninum líkt við krossbera á friðlausri
píslargöngu? Hvers vegna er manneskjan „fordæmd“? í bók-
menntum nútímans er „dómurinn“ fyrst og fremst líkingamál
og án trúarlegrar skírskotunar. Maðurinn er ekki „dæmdur“ af
blindum Drottni heldur dærnir hann sig sjálfur. Táknmál
dómsins skírskotar oftast nær til vitundar mannsins um að
hann deyr, að lífið sjálft er að því leyti hinn mikli andstæðingur.
Maðurinn fellir sjálfur dóminn um leið og hann öðlast skilning
á aðstæðum sínum: takmörkun, fallvelti og dauða. Hann er
þannig dómari og sökudólgur í senn, böðull og fórnardýr sjálfs
sín.