Skírnir - 01.01.1981, Page 84
82 MATTHÍAS VIÐAR SÆMUNDSSON SKÍRNIR
L’Étranger (Útlendingurinn) eftir Albert Camus. Hvort þar er
um bein tengsl að ræða skal hins vegar ósagt látið.
Líkt og í Útlendingnum gegnir sólin veigamiklu hlutverki
í sögu Geirs. Hún er óstöðvandi, svíðandi og ágeng, tákn fram-
andi veraldar sem ryðst inn í vitund mannsins. Hún er veru-
leiki heims þar sem maðurinn er „útlendingur". Mersault sagði
sjálfur að hann hefði drepið arabann vegna sólarinnar.34 í sögu
Geirs er viss hliðstæða við þetta atriði:
Það var líka sólskin þennan dag og hafði ekki rignt I mánuð, og það var
þá sem hann keypti hnífinn. (21)
Drápssenurnar í Útlendingnum og sögu Geirs virðast einnig
vera hnoðaðar úr svipuðum leir. í sögu Geirs segir:
Hann mundi ekki nákvæmlega, hvernig það atvikaðist að hann stakk hann,
en hann hafði óljóst hugboð um, að sá gamli hefði hrópað eitthvað, og hann
mundi að yfirvararskeggið hafði titrað og eftir að hann var dottinn, snéri það
hvíta í augunum út.
Þetta hafði allt verið miklu auðveldara en hann bjóst við, og hann gaf
sér meira að segja tíma til að tína upp brauðskorpurnar og kasta þeim í
tjörnina. Hann hafði líka þurrkað af hnífnum á grasinu, þegar hann heyrði
háan, breytilegan són neðan úr bænum eins og þegar slökkviliðið er á ferð-
inni og þá fór hann að gá, hvort hann sæi nokkursstaðar hús vera að brenna.
(22-23)
Morðið er, líkt og í Útlendingnum, nær ósjálfráð uppreisn
einstaklingsins gegn yfirþyrmandi veruleika. Það er viðbragð við
óbærilegum ytri þrýstingi. Og um leið er það absúrd verknaður.
Klausan sýnir ljóslega algjört sambandsleysi mannsins við heim-
inn. Morðið hefur enga sérstaka þýðingu í hans augum fremur
en dráp arabans í augum Mersaults.
III.3 Hlutgerving og ógleði
í Frá þeim sem ekki hafa mun tekið verða birtast áhrif Sartres
með skýrasta móti í bók Geirs. Saga þessi þræðir framvinduna
frá sjálfsblekkingu til upplausnar. Hún fjallar um „fall“ mann-
eskjunnar í hlutheiminn og sálarástandið sem því fylgir.
Aðalpersóna sögunnar, Jón Jónsson, er höfuðsetinn af veröld-
inni líkt og aðrar persónur Geirs. Hann er óendanlega smár og