Skírnir - 01.01.1981, Síða 103
ÓLAFUR JÓNSSON
Atómskáld og módernismi
Er markvert að tala um sérstaklega nútímastefnu: módernisma
í íslenskum bókmenntum? Það er nú vísast, og vonandi, enda
einatt gert. Og veltur þá á mestu að auðið sé að auðkenna með
þessum eða þvílíkum orðum skáldverk og rithöfunda, stefnumið
og tímabil í bókmenntunum sem skilmerkilega aðgreini sig frá
öðrum bókmenntum á undan, samtímis og eftir hinum nýju
verkum og nýstefnunni sjálfri.
Nútímastefna, módernismi, nýstefna ... Merking slíkra orða
liggur kannski ekki öldungis í augum uppi þótt þau séu auðhent
á lofti; þegar nánar er að þeim gáð kunna þau að reynast alla-
vega reikul í sinni rás. Hvað er eiginlega „nútími“ í bókmennt-
um? Saga bókmenntanna verður auðvitað ekki aðgreind né ein-
angruð frá annarri sögu, og sjálfgert að sjá og setja upphaf nú-
tíma-bókmennta í samhengi við upphaf nútíma-sögunnar að
öðru leyti, skil fyrri tíma og nútíðar í þjóðlífi og þjóðfélagsþró-
un, atvinnuháttum og stjórnmálum. Hér á landi verður þá nær-
tækt að draga aldaskilin um eða eftir fyrri heimstyrjöld, tam.
við árið 1918, enda er það oft gert; og það gerir Kristinn E.
Andrésson í einustu sögu samtíma-bókmennta sem enn hefur
verið samin á íslensku. Eftir endalok sjálfstæðisbaráttunnar við
dani verða þáttaskil í stjórnmálum, kemst á ný pólitísk flokka-
skipun, eftir stéttum, stéttasamtök á vinnumarkaði með stofnun
alþýðusambandsins og ný skipan í verslunarmálum með upp-
gangi samvinnuhreyfingar; þá kemst skriður á þróun atvinnu-
lífs og búsetu á burt frá bænda- og sveitasamfélaginu gamla til
iðnaðar- og þéttbýlis-þjóðfélags okkar daga, þótt hún væri ekki
komin í kring fyrr en um og eftir seinni heimstyrjöld. Og
þá verða skýr kynslóðaskil í bókmenntum, síðustu fulltrúar 19du
aldar að kveðja og hverfa á braut og fram koma þeir höfundar
sem sett hafa mestan svip á bókmenntirnar fram á þennan dag,
sumir þeirra enn á dögum, og þar með ný þjóðskáld nýrrar ald-