Skírnir - 01.01.1981, Page 104
102 ÓLAFUR JÓNSSON SKÍRNIR
ar. Önnur gleggri kynslóðaskil hafa í öllu falli ekki orðið í bók-
menntasögunni síðan.
Þegar um þessi efni er rætt er einatt allt haft í sama orðinu,
nútímastefna og módernismi í bókmenntum og formbylting og
atómstefna í ljóðagerð áratuginn eftir stríð eða svo. 1 þeim
kringumstæðum byrjar Eysteinn Þorvaldsson bók sína um atóm-
skáldin og upphaf módernisma, einhverja fyrstu tilraun til að
koma akademískri bókmenntakönnun og skýringu við sögu sam-
tíma-bókmennta.1
Nú er það auðvitað að á hverjum tínia má með góðurn og
gegnum rökum telja sumar bókmenntir „nútímalegri" en aðrar;
sum verk og höfundar semja sig umfram allt í efnivið og aðferð-
um að fyrri tíðar háttum og þeirri bókmenntahefð sem liggur
í landi, en önnur auka við og endurnýja ef þau ekki beinlínis
rísa gegn hefðinni og rjúfa hana. Og á hverjum tíma er eitthvað
uppi sem kalla má „nýstefnu“ í bókmenntum, svo sem eins og
hið svonefnda „nýja raunsæi“ sem í seinni tíð gengur fjöllunum
hærra í skáldsögum. Gildir einu þó á daginn komi við nánari
skoðun að hvorki séu efniviður né aðferðir hinna nýju bók-
mennta ýkja nýstárlegar né viðhorf þeirra „nútímaleg“. Rétt-
nefndur „módernismi" kann á hinn bóginn að vera stefna eða
hreyfing sem gætir eða gengur í gegnum bæði nútíma- og sam-
tíma-bókmenntir. Eigi orðið að vera nýtilegt á íslensku þarf það
að vísu að hafa sambærilega merkingu við það sem gengur og
gerist á erlendum málum, taka til einhverra þeirra auðkenna
sem íslenskur módernismi hafi sameiginleg með módernisman-
um í erlendum og alþjóðlegum bókmenntum.
Eysteinn Þorvaldsson getur þess í bók sinni að sjálft orðið
„módernismi“ sé á íslensku fyrst notað um ýmis nýmæli í mynd-
list, og finnur dæmi þess um 1940, en um og upp úr 1950 sé
einnig farið að tala um „módernista“ og „módernisma” í bók-
menntum (17). Það er kunnara en frá þurfi að segja að orðið
„atómskáld" kom fyrst fyrir í skáldsögu Halldórs Laxness, Atóm-
stöðinni, sem kom út 1948, og var brátt hent á lofti og haft í hálf-
kæringi um hverskonar nýstárlegan skáldskap (103). Ljóð sem
viku frá eða höfnuðu með öllu hefðbundnum bragreglum, og
þóttu þá um leið torkennileg að efni, allt að órum og endileysu,