Skírnir - 01.01.1981, Blaðsíða 106
104 ÓLAFUR JÓNSSON SKÍRNIR
áttu hlut að safnritunum Ljóð ungra skálda (1954) og Erlend nú-
timaljóð (1958) þar sem fyrst var reynt að veita yfirlit og leggja
mat á Ijóðagerð formbyltingarskeiðsins, tveir þeirra stóðu að út-
gáfu tímaritsins Birtings frá 1955 og allir skrifuðu og ortu í ritið.
Og allir hafa þeir skipað sér rúm sem einhver hin helstu ljóð-
skáld í sinni kynslóð. Þótt ekki muni allténd ýkja miklu á aldri
(Jón úr Vör fæddur 1918, Stefán Hörður 1919) er ljóst að kyn-
slóðaskil liggja á milli þeirra og næstu höfunda á undan; Jón úr
Vör birti sín fyrstu ljóð áratug fyrr en Stefán Hörður, mótaður
af kreppunni, rauðum pennum og kröfunni um félagslegt raun-
sæi, félagslega hlutdeild bókmenntanna. Munurinn liggur í aug-
um uppi af fyrstu ljóðunum í fyrstu bókum þeirra beggja,
Glugginn snýr i norður eftir Stefán Hörð (1946) og Ég ber að
dyrum eftir Jón úr Vör (1937). Á sama máta liggja skil í aldri og
viðhorfum á milli atómskáldanna og þeirra sem næstir koma
og máli skipta; Þorsteinn frá Hamri og Jóhann Hjálmarsson eru
ekki „atómskáld", áratugnum yngri og þaðan af meir, fæddir
1938—39, fyrstu rit útgefin 1956—58; Ijóðagerð þeirra frá önd-
verðu mótuð undir áhrifum „formbyltingarinnar" og ger-
breyttra samfélagshátta frá því sem var í æsku atómskálda.
Það er bersýnilega markvert athugunarefni, ef maður hefur
gaman af bókmenntasögu og gagnrýni, hvort og hvað þá hin
eiginlegu atómskáld eigi sameiginlegt umfram hlutdeild sína í
hinni margumræddu formbyltingu eða „bragbreytingu“ Ijóða-
gerðar. Hverjir eru þeir innst inni? En þótt einkennilegt megi
virðast lætur Eysteinn Þorvaldsson það rannsóknarefni að mestu
leyti undir höfuð leggjast í bók sinni um efnið.
Um orðið „formbyltingu“ getur Eysteinn ekki í bókinni, en
það hlýtur líka að vera nýlegt af nálinni. Það hefur þó fengið á
fæturna árið 1954 þegar Magnús Ásgeirsson gaf út Ljóð ungra
skálda. í formála safnsins talar hann fyrirvaralaust um „form-
byltinguna í íslenskri ljóðagerð" sem á hafi gengið undanfarinn
áratug. „Sú bylting nær samkvæmt eðli sínu að vísu miklu lengra
en til ríms og hátta,“ segir Magnús. Að svo búnu ræðir hann
samt sem áður um formbyltingu eins og hún taki einvörðungu
til hinna bragfræðilegu atriða, hátta og lirynjandi, ríms og
ljóðstafasetningar. Og Magnús mun hafa orðið fyrstur til að orða