Skírnir - 01.01.1981, Page 132
130
VÉSTEINN ÓLASON
SKÍRNIR
áfram með því að taka sér í nýju umhverfi stöðu við hlið þeirra
öreiga sem fyrir eru í bæjarsamfélaginu og verða stéttarbræður
flestra hinna uppflosnuðu þótt kjör allra taki miklum stakka-
skiptum; hins vegar að láta af allri uppreisn, gangast undir
forsendur þess borgaralega samfélags sem hér hefur verið í stöð-
ugri mótun og gæta eigin hagsmuna innan þess ramma. Sjálf-
sagt væri hægt að setja þessa valkosti fram á annan hátt eða
draga í efa að þeim hafi verið til að dreifa, en of langt mál yrði
að rökræða það frekar hér.
IV
Sögusvið Þjófs í paradís og Norðan við stríð er annars vegar
sveit hins vegar kaupstaður. Þjófur í paradís gerist á árunum
milli styrjalda í umhverfi sem á flest sameiginlegt með heima-
sveit höfundar, Skagafirði, og efniviður sögunnar er, sem frægt
er orðið, að miklu leyti sóttur til sakamála sem urðu í Skaga-
firði í lok fjórða áratugarins. Fátækur bóndi hefur alllengi ver-
ið grunaður um sauða- og hrossaþjófnað af nágrönnum sínum.
Hann er tekinn fastur og kærður fyrir að hafa stolið týndum
hesti. Hann neitar staðfastlega en eftir rækilega leit á bæ hans
finnast sönnunargögn fyrir því að hann hafi stolið bæði fé og
hestum og hann játar þá. Hann er dæmdur til fangavistar og
fluttur burt, en samtímis kemur í ljós fyrir tilviljun að hann er
saklaus af því sem hann var upphaflega ákærður fyrir.
Eiginleg aðalpersóna í þessari bók er þó ekki hinn ákærði
lieldur samfélagið, sveitin sem hann brýtur gegn. Samfélag þetta
lítur á þjófnaðinn reiðilaust, nánast með vissri blygðunarkennd
og vorkunnsemi. Á sama hátt virðist höfundur líta á sveitafólk-
ið sem hann kynntist í bernsku: vissulega hafði það sína galla,
menn voru óþarflega grandalausir og bældu vitneskjuna um að
líka væri til eitthvað illt í mannskepnunni. En þetta tengist já-
kvæðum sambúðarháttum: fólk er gott hvert við annað og sýnir
hvert öðru trúnaðartraust, hefur tilfinningu fyrir djúprættri
samstöðu. Þótt þjófur reynist vera í þessari paradís haggar það
ekki undirstöðum hennar. Þjófurinn er að vísu fátækur og lifir
á útjaðri samfélagsins, en hann og fjölskylda hans virðast þó ekki
þola neyð og atferli hans er útskýrt sem afbrigðilegt og sjúklegt.