Skírnir - 01.01.1981, Síða 135
SKÍRNIR
FRÁ UPPREISN TIL AFTURHALDS
133
Persónur í Norðan við stríð virðast miða líf sitt við tvenns
konar gildi: annars vegar er vald, peningar og kynlíf, hins vegar
er „heiðarlegt“ starf í víxlverkun með náttúrunni og hin
„hreina“ ást. Af þessu má ráða að aðalathafnasvið bókarinnar
eru svið efnahagsmála og ástamála. Minna máli skipta tvö önn-
ur athafnasvið, hið hernaðarlega og pólitíska, sem síðar verður
að vikið. Athafnir karla taka meira og minna til allra þessara
sviða, amk. sviðs efnahags- og ástamála, en konur eru nær ein-
göngu virkar á sviði ástamála. Kalla má að þungamiðja bókar-
innar liggi í skurðfleti þessara tveggja sviða.
Einhver mikilvægust persóna í sögunni, og sú sem kemst einna
næst því að vera aðalpersóna, er vesturíslendingurinn Jón Falkon,
fasteignasali og braskari en auk þess túlkur og aðstoðarmaður
fyrir liðsforingja hernámsliðsins. Hann er fljótur að átta sig á
þeim gróðamöguleikum sem hernámið færir og auðgast á jarða-
braski og verslun. í rauninni er þó mjög lítil grein gerð fyrir fjár-
málaumsvifum hans. Að vísu kemur fram að hann græðir mjög
á að kaupa landið sem Bretar ætla að nota undir flugvöll (af því
að hann kemst á snoðir um fyrirætlanir þeirra) en samt hvílir
einhver dul yfir auðæfum hans. Aðalvandamál Jóns Falkons er
á sviði einkamálanna. Hann er náttúrulaus og leitar huggunar
í brennivínsdrykkju. Samband hans við liðsforingjana verður til
þess að hann er kokkálaður og að lokum hverfur kona hans á
braut með breskum liðsforingja. Jón Falkon er þó ekki á því að
gefast upp. Hann nær sér í ástkonu, þýska konu sem á mann
sinn í fangabúðum í Englandi, og læknirinn, vinur hans, fer
að gefa honum sprautur til að reyna að lækna náttúruleysið.
Aðaleinkenni Jóns Falkons er hæfileiki hans til að bjarga sér
hvernig sem allt veltist í kringum hann. Gróðann af flugvallar-
braskinu, eða eitthvað af honum, leggur hann í að koma á fót
skóverksmiðju í félagi við dreyminn skósmið. í samtali þeirra
lætur hann í ljós lífspeki sína:
Skiptir ekki raáli hvar þú ert fæddur eða hvar þú býrð. En það skiptir
máli hvort þú kannt að berjast eða ekki; hvort þú kannt að rísa upp þegar
þú fellur og smíða þér ný vopn úr brakinu sem hrundi ofan á þig.
Og þetta skiptir máli, segir hann og lyftir töskunni. (101—102, taskan er
full af peningaseðlum).