Skírnir - 01.01.1981, Page 139
SKÍRNIR
FRÁ UPPREISN TIL AFTURHALDS
137
ratar höfundur í nokkur vandræði sem hann leysir þó snilldar-
lega. Kyngeta er hluti af ímynd hins sanna karlmanns, og þótt
Per geti ekki leynt löngun sinni þegar hann liggur við hlið Lilju
gerir hann enga alvarlega tilraun til að hrinda henni í fram-
kvæmd. Það bannar riddaramennska hans. Sjálfsstjórn hans og
hófsemi í ástamálum er lofsverð en hefur þær afleiðingar að
hann getur ekki sannað karlmennsku sína á þessu sviði. Þó er
ekki fjarri lagi að líta svo á að hann geri það á óbeinan og tákn-
rænan hátt á sinni síðustu og hetjulegustu stund þegar hann,
bókstaflega talað, „þröngvar sér inn í“ þýska herflugvél.
Síðan steypir hann sér snöggt niður fyrir aftan Junkerinn og flýgur aftan
undir hann. Kúlurnar hvina í kringum hann og rífa upp byrðing Northrop-
vélarinnar. En það breytir engu úr þessu. Hann nálgast Junkerinn hægt og
bítandi. Nú ber hæðarstýri hans í mótor Northropvélarinnar. Per Hiört
heldur vélinni kyrri þannig og bætir við mótorinn, unz skrúfublaðið er kom-
ið alveg að Junkernum. Þá víkur hann vélinni til hliðar og lætur skrúfu-
spaðana saxa sig inn i hæðarstýrið. Junkerinn tekur snögga dýfu og byrjar
að hrapa. Northropvélin missir ferðina. Mótorinn gengur með dunum og
dynkjum, og það er eins og vélin ætli að hristast i sundur í höndum hans.
(242)
Áður en Per Hiört gerir þessa árás hefur hann fengið skipun
um að snúa við. Hann berst hér á eigin ábyrgð og fórnar lífinu
fyrir sigurinn. Þannig er ljóma varpað á hina einstaklings-
bundnu hetjudáð sem um leið birtist sem andstæða listarinnar
að lifa af, listar Jóns Falkons.
Þegar samfélag er farið að draga dám af andstæðu paradísar,
helvíti, mætti merkilegt heita ef ekki væri í sögunni að finna
einhvern fulltrúa myrkrahöfðingjans. Kemur þá að því að reynd-
ar má enn tala um stjórnmálalegt athafnasvið í bókinni.
Ábyrgir og opinberir stjórnmálamenn eiga fulltrúa í Norðan
við stríð, Valmund líkkistusmið, afar hæglátan sveitarstjórnar-
mann, en táknræn mynd af stjórnsýslu þeirra birtist í mógraftrar-
vél sem klúkir á bryggjusporði. Þessa vél hafa þeir útvegað til
að veita atvinnulausum eitthvað að sýsla, en hún var ekki komin
lengra þegar herskip lögðust að sömu bryggju og gerðu hana
óþarfa í sömu andrá. Kalla má að vélin sé afbragðs tákn um það
hvernig opinber stjórnmál og stjórnsýslu dagar uppi þegar
skyndilegar breytingar verða á efnahagslegum grundvelli.