Skírnir - 01.01.1981, Page 140
138
VÉSTEINN ÓLASON
SKÍRNIR
Eina persónan í bókinni sem lifir af pólitík og fyiir hana er
ritstjóri kommúnistablaðsins. Lesandi er ekki látinn velkjast í
vafa um hverjum augum beri að líta þessa persónu. Hann er
kynntur með þessum orðum:
Ritstjóri kommúnistablaðsins situr frammi við dyr. Það er eins og a£l-
taugar í öðrum helmingi andlitsins séu slitnar. Augað þeim megin starir
eitthvað út í buskann, en hitt er vökult og gáfulegt og fullt af heiftúðugri
miskunnsemi. Vegna slappleikans á öðrum helmingi andlitsins leikur stöðugt
grimmdarbros um varir hans. (47—8)
Þessi afskræmdi ritstjóri vakir yfir bænum eins og ránfugl,
alltaf viðbúinn að stinga sér niður þar sem hægt er að ala á
sundrung og illindum. Hlutverk hans í atburðafléttunni er lítil-
fjörlegt, en greinilega er hann fulltrúi hættulegra afla sem liggja
í leyni, viðbúin að granda samfélaginu með svipuðum hætti
og myrkraöflin í huga þjófsins í paradís. Eftirtektarvert er hve
samband lians við lífið í bænum er losaralegt. Hvergi er getið
um flokksdeild eða stjórnmálastarf sem myndað gæti grundvöll
fyrir athafnir þessa ritstjóra, né heldur önnur blöð eða flokka
sem hann eigi í höggi við. Eins og hernámsliðið er hann í raun-
inni fulltrúi fyrir fjarlægt og ópersónulegt vald sem stjórnar
öllum athöfnum hans. (Fyrir honum byrjar stríðið þegar Þjóð-
verjar ráðast inn í Sovétríkin.) Kommúnisminn, liin byltingar-
sinnaða andófshreyfing, er þannig ekki á nokkurn hátt sett í
samhengi við að eitthvað kunni að vera athugavert við það sam-
félag þar sem hann kemur upp, heldur túlkaður einangrað sem
yfirskilvitlegt myrkravald, viðleitni til að draga fram úr sálar-
djúpi einstaklinganna þau myrku meginlönd sem um er talað
í Þjófi í paradís. Þetta bendir til að andstæðan milli þeirrar ein-
staklingsbundnu hetjulundar, sem Per Hiört er fulltrúi fyrir, og
hæfileika einstaklingshyggjumannsins Jóns Falkons til að lifa af
sé ekki grundvallarandstæða heldur yfirborðsfyrirbæri. Utan
við samfélagsvettvanginn eru andstæð öfl, í sjálfu sér óskiljan-
leg og óviðráðanleg, kommúnisminn og hið alþjóðlega auð-
magn, hið fyrra eingöngu eyðileggjandi, hið síðara í sjálfu sér
ósiðlegt en gefur mönnum þó kost á að bjarga sér.