Skírnir - 01.01.1981, Page 146
144
HALLDÓR LAXNESS
SKÍRNIR
fyrir háklassik einsog íslendíngasögum og eddukvæðum uppúr
tólfhundruð. Hinsvegar má telja það óhjákvæmilegan árángur
af „siðbót Lúters“ þegar þarað kom, að eftir innleiðslu hennar
hér var skolleyrum skelt við kaþólskri bóköld okkar sem verið
hafði undanfari íslendíngasagna og eddu.
í Siðbótinni voru leiðarmörk okkar á mentabraut ekki aðeins
flutt frá Einglandi og Frakklandi, og kristilegt uppeldi okkar
leyst úr teingslum við Róm sjálfa, heldur fór svo að við feingum
okkur kristilega utanáskrift í skrýtilegum saxneskum sveitapláss-
um, tilamunda Wittenberg og Pommern, og lauk með því að
við drógum einhverstaðar „vinda og gauta hertoga" á tombólu
(en svo hljóðar einn af titlum danakonúnga) auk hertogans af
Lauenburg og svo framvegis. Sjálf höfuðborg danaríkis, þaðan
sem hét að okkur vasri stjórnað, var lögð undir lágþýska her-
toga og kórdjákna Lúters.
Norðurevrópskir útkjálkamenn Siðbótarinnar og íslendíngar
upplærðir af þeim, einsog Arngrímur lærði, flokkuðu í raun
réttri bókmentaskeið okkar hið fyrsta, 12tu öldina, undir villu
og svíma; svo gerði jafnvel sjálfur Árni Magnússon. Fyrir bragð-
ið liggja bækur þessa guðvísa frumtíma enn í rusli, lítt rann-
sakaðar, einstöku þó útgefin, en illa og þá mestanpart af út-
lendum fræðimönnum. Lærdómsmenn okkar létu sér ekki duga
að hunsa kirkjulega texta forna, heldur tókst þeim í Siðbótinni
að brenna eða rista sundur til iðnaðarþarfa hinar miklu messu-
bækur kirkjunnar og aðrar saungbækur, gulls ígildi, dýrlega
lýstar og útflúraðar á bókfell, svo og brjóta flestallar myndir og
önnur listaverk kirkjuleg sem til voru í landinu, þeim sem ekki
var stolið eða rænt og seld útlendíngum fyrir smápenínga ellegar
gefin.
Og nú víkur sögunni að bók sem hefur inni að halda mjög
fjölvíslega markað litróf þess guðfræðilega raunveruleiks mið-
alda, sem kalla má að verið hafi fögnuður og leiðarljós þeirrar
tíðar manna: máríutignun. Hér gefst ekki tóm til að útlista
blöndu sem miðaldir gerðu af skáldskap náttúrufræði sagnfræði
guðfræði, öllu í senn, auk aðdáun helgrar meyar; en ég vil
aðeins minna á þá tíð þegar máríumyndin var ímynd öryggis
og mildi; tákn móðurfaðmsins; og um leið eitt sterkast afl sið-