Skírnir - 01.01.1981, Qupperneq 153
SKÍRNIR ÞJÓÐSAGA OG SÖGN 151
pjóðsögur og œvintýri, óeðlilegur og villandi. Þessi titill stríðir
gegn þeim skilningi sem fram kemur í formála Guðbrands og
eins gegn efnisskipan bókarinnar og umræddri athugasemd Jóns,
að ævintýrin séu aðeins ein grein þjóðsagna. Með þetta í huga
hefði verið eðlilegt að fella síðari hluta titilsins niður í endur-
útgáfu þjóðsagnanna. Svipaða leið velur Sigurður Nordal, er
hann nefnir bók sína Þjóðsagnabók, en birtir síðan í henni án
sérstakra athugasemda flokk ævintýra ásamt öðrum sagnaflokk-
um.20
Athyglisvert er að gefa því gaum, að ævintýrsheitið hverfur
að mestu úr íslenskum þjóðsagnasöfnum eftir daga Jóns Árna-
sonar. Þjóðsögur verður liins vegar mjög algengt heiti, oft að
viðbættu einhverju öðru sem skírskotar nánar til raunveruleik-
ans, svo sem sögn, munnmæli eða sagnaþættir.21
Einhver skýrasta skilgreining á þjóðsögu sem til er á íslensku
er gerð af Símoni Jóh. Ágústssyni og birt í tímaritinu Helgafelli
árið 1942. Skilgreining hans er á þessa leið:
Helstu einkenni þjóðsögu er það, að hún er frásögn um atburði, oftast
dulræna eða óvenjulega atburði, sem gengið hefur alllanga hríð í munn-
mælum. Hún er að nokkru leyti verk óteljandi manna, sem enginn veit nöfn
á. Alþýða manna hefur skapað hana í sinni mynd og sett svip sinn á hana.
Oft er sannsögulegur atburður tilefni þjóðsögunnar, en hin upprunalega
frásaga hefur aflagast eða skekkst á ýmsa lund: Hún verður oftast einfald-
ari, aðeins meginatriðin eða uppistaðan haldast nokkurnveginn rétt, hún
ýkist, verður dramatískari, andstæður skerpast, nýjum atriðum er bætt inn
í o. fl. Þjóðsagan sýnir og, hvernig alþýðan á hverjum tíma skýrir fyrir sér
örlög manna og atburði, hún ber keim af menningu hennar yfirleitt, trú
hennar og hjátrú, von og ótta. En þótt þjóðsagan sé þannig mótuð i megin-
dráttum, er samt engan veginn sama hver segir hana. Góður sögumaður
varpar persónulegum blæ á hverja sögu, bæði orðalag og byggingu. Hinn
listræni, heilsteypti svipur, sem er á sumum þjóðsögum, er sennilega að
mestu leyti verk góðs sögumanns. Sagan af Galdra-Lofti hefur varla gengið
manna milli í jafn listrænum búningi og hún er í í Þjóðsögum Jóns Árna-
sonar. Sögumaðurinn, séra Skúli Gíslason, hefur gert úr henni listaverk.
Mér fannst ég vel skilja þátt þann, sem munnmælin eiga annarsvegar og
sögumaðurinn hinsvegar i góðri þjóðsögu, er ég heyrði eitt sinn Herdísi
Andrésdóttur segja munnmælasögu nokkra, sem mér var áður kunn úr
átthögum mínum. Fá ný efnisatriði komu þó þar fram, og viðburðaröðin
var nær hin sama, en orðalagið og heildarmótið voru stórum áhrifameiri og
listrænni í frásögn Herdísar en munnmælasaga þessi er hjá ótindum al-