Skírnir - 01.01.1981, Page 155
SKÍRNIR ÞJÓÐSAGA OG SÖGN 153
leiðir einnig gerólíkan stíl. Sögnin er stutt og frásögn hennar
oft þurr, en þjóðsagan leitast hins vegar við að gera frásögnina
eins lifandi og safaríka og unnt er.“24
Aðrir fræðimenn hafa dregið fram fleiri mismunareinkenni á
þjóðsögu og sögn. Þjóðsagan er yfirleitt lengri en sögnin og
form þjóðsögunnar er að jafnaði fastmótað, en form sagnarinn-
ar getur verið með ýmsu móti. Hlutverk þjóðsögu er framar
öðru að skemmta eins og áður gat, en hlutverk sagnar getur
verið mjög margbreytilegt. Sagnir geta verið víti til varnaðar,
þær geta verið settar fram í skýringarskyni til að varpa ljósi á
tilurð eða tilkomu einhvers fyrirbæris eða staðfesta það sem
fyrir hendi er svo sem trúarhugmyndir eða kenningar. Þá geta
sagnir gegnt uppeldishlutverki og loks geta þær átt það sam-
merkt með þjóðsögunum, að þeim er ætlað að skemmta fólki.25
Þjóðsagnafræðingar hafa allt til síðustu áratuga sýnt sögnum
minni áhuga en þjóðsögum. í samanburði á rannsóknum jojóð-
sagna og sagna, sem Anna Birgitta Rooth gerði fyrir tveimur
áratugum, kemur fram að sögnunum hafði til þess tíma verið
næsta lítill gaumur gefinn. í ritgerð sinni hvetur Anna Birgitta
til aukinnar rannsóknar á sögnum og bendir m. a. á hve rann-
sókn þeirra sé mikilvæg fyrir þjóðfræðina, vegna þess hverju
þær miðla af þjóðtrú og siðvenjum.26
Fyrstur norrænna þjóðfræðinga til að sinna sögnum að marki
var Dag Strömbáck, en rannsóknir hans á þessum vettvangi
snerta okkur íslendinga verulega, því að rannsóknarverkefni
hans tengjast mjög oft íslenskum efnum. Má í því sambandi
nefna rannsóknir Dags á elstu kirkjustöðum í sögnum og þjóð-
trú og eins rannsóknir hans á sögnum tengdum efni íslend-
ingasagna.27 Á síðustu áratugum hefur áhugi þjóðfræðinga hvar-
vetna beinst að sögnum í auknum mæli.
Hér á landi eru rannsóknir á sögnum nánast óplægður akur.
Að undanskilinni rannsókn Óskars Halldórssonar um hugsan-
legar sagnir sem höfundur Hrafnkels sögu hafi haft úr að
moða,28 þá hefur lítið verið unnið markvisst að þjóðsagnafræði-
legri rannsókn á sögnum hérlendis. Ótöluleg verkefni bíða þó
þjóðsagnafræðinga á þessum vettvangi frá öllum öldum íslands-
byggðar, allt frá landnámi til samtímans.