Skírnir - 01.01.1981, Page 165
SKÍRNIR
FRÁSAGNARMYNSTUR
163
þeir að þeirri niðurstöðu, að atburðarásin fylgi ákveðnu grunn-
mynstri í hvorunr flokki. Þannig greinir Andersson svokallað
ófriðarmynstur í frásögnum íslendinga sagna, en Harris svonefnt
ferðamynstur í íslendinga þáttum.
Ófriðarmynstrinu er fylgt í frásögn af deilum og vígaferlum.6
Andstæðingarnir, sem annaðhvort eru einstaklingar eða hópar,
eru kynntir í upphafi, og síðan er fjallað um ágreiningsefnið.
í íslendinga sögum verður venjulega ágreiningur vegna einhvers
eftirtalinna atriða: ástarsambands, eignaréttar, æru- eða líkams-
meiðinga. Ágreiningurinn eykst síðan stig af stigi vegna athafna
aðilanna, uns deilan nær hámarki, oftast með því að annar aðil-
inn sigrar í blóðugum átökum. Eftir það kemur til hefndarað-
gerða. En að lokum er sæst á málið. í þessu mynstri eru því sex
liðir:
1. Kynning á deiluaðilum.
2. Deiluefni.
3. Andstæðar aðgerðir deiluaðila.
4. Hámark deilu eða höfuðátök.
5. Hefnd.
6. Sætt.
Hins vegar fylgir atburðarásin í utanferðum íslendinga ferða-
mynstrinu. Eftir að söguhetjan hefur verið kynnt, segir frá því,
að liún tekur sér fari utan, og frá ferðinni. Þá er fjallað um
að hetjan kemur til erlendrar hirðar. Þar veitist henni vanalega
einhver heiður, eins og að vera tekin í hirðina eða fá gjafir.
í sambandi við það er manngildi hetjunnar reynt. Það getur
líka gerst í víking eða með því, að hetjan taki að sér eitthvert
verkefni. Hetjan snýr síðan heim með sóma. Þannig eru fjórir
liðir í þessu mynstri:
1. Kynning á hetjunni.
2. Utanför.
3. Prófraun hetjunnar.
4. Heimkoma.
Hér er orsök brottfararinnar ekki sérstakur liður, því að utan-
ferðirnar eru gjarnan sjálfsagður hlutur.