Skírnir - 01.01.1981, Side 167
SKÍRNIR
FRÁSAGNARMYNSTUR
165
frásagnir um Flugumýrarbrennu og dráp Odds Þórarinssonar í
Geldingaholti. Enda var Þorgils skarði ekki á þessum fundum,
þótt þeir tengdust atburðum sögu hans.
Ef litið er á það, sem geymst hefur af Þorgils sögu, sést, að fjór-
ir atburðir eru þar mikilvægastir: Hirðganga Þorgils (1245);
ferð Hrafns Oddssonar og Sturlu Þórðarsonar að Þorgilsi í Stafa-
holti (1252); Þverárbardagi (1255); víg Þorgils (1258). Um þessa
atburði hverfist sagan. Því má skipta henni nokkurn veginn í
fjóra hluta:
1. 1.—10. kafli, sem greina frá uppvexti Þorgils og utanferð,
þegar hann gerðist hirðmaður Hákonar konungs Hákonarson-
ar.
2. 11.—35., 38. kafli, sem segja frá deilum Þorgils við þá Hrafn,
Sturlu og Þorleif í Görðum, fylgismenn Þórðar kakala, sem
nú var kyrrsettur í Noregi.
3. 36.-37., 39.-63. kafli, sem fjalla um, að Þorgils veitti Þorvarði
Þórarinssyni lið í eftirmálum eftir dráp Odds, bróður hans.
4. 64,—81. kafli, sem segja frá ósætti Þorvarðar og Þorgils, drápi
Þorgils og sættum eftir það.9
Að vísu spinnast atvik inn í söguna, sem ekki koma beint við
atburðarásina, sem þessi skipting tekur til. Þannig er 28. kafli,
sem skýrir frá óróa Vestars Torfasonar vegna framkomu Þorgils
við konu hans, algjört aukaatriði í sögunni. En einmitt af því
að þessi atvik eru aukaatriði, breyta þau ekki framangreindri
skiptingu sögunnar.
Sé atburðarásin í hverjum hluta Þorgils sögu borin saman við
frásagnarmynstrin, sem Andersson og Harris greindu, kemur í
ljós, að hún fylgir ferðamynstrinu í fyrsta hlutanum og ófriðar-
mynstrinu í hinum þremur.
í upphafi sögunnar segir frá því, að Þorgils fer utan, og stefn-
ir hugur hans til að ná fundi Hákonar konungs. Hann nær þeim
fundi og biður konung viðtöku, og það gerir konungur, enda
þótt hann dragi Þorgils á svari, því að hann vill reyna hann. Við
hirðina fær konungur síðan reynslu af karlmannsþori Þorgils,
þjónustulund hans og tryggð við sig. Því sendir konungur hann
til íslands með umboð sitt vegna arfs eftir Snorra Sturluson,