Skírnir - 01.01.1981, Síða 209
SKÍRNIR
RITDÓMAR
207
eftir eigin höfði. Virðist það hafa tekizt vel. Eðlilegt er að byrja á því að
segja frá ströndinni, fjörunni og öllu, sem þar finnst til nytja. Straumar og
ísar bera trjávið til landsins og hann er hirtur í fjöruborðinu, — og selurinn
er hálfur á landi og hálfur i sjó, á mörkum tveggja veralda.
Aðferð höfundar er sú að kanna allar ritaðar heimildir, sem tiltækar eru
um sjávarhætti frá landnámsöld og fram á tuttugustu öld. En eins og áður
segir hefur hann jafnframt leitað til á fjórða hundrað manna um allt land
og fengið þar margvíslegan fróðleik. Framlag þessara heimildarmanna er
mikið, og minnir enn einu sinni á nauðsyn þess, að tafarlaust verði hafizt
handa um að bjarga frá glötun þeirri vitneskju um atvinnuhætti og al-
menna þjóðhætti sem hverfa með þeirri kynslóð, sem síðust lifði við lítt
breyttar venjur og siði. Þjóðfræðin, etnografi, er vísindagrein í örum vexti
víða um heim. Hún fæst við lifnaðarhætti og menningu þjóða og er mikil-
vægur hluti af almennri mannfræði. Þjóðum heims er að skiljast, að á tím-
um örra breytinga og byltinga í atvinnulífi og þjóðháttum er nauðsynlegt,
að menn geri sér grein fyrir uppruna sínum, og viti hvar rætumar liggja,
rætur þjóðmenningar og lífsviðhorfa. Maðurinn er vera sem á sér sögu og
finnur tilgang í menningu sinni og heimsmynd. Hver er ég, hvaðan kem ég,
hvert fer ég? spyr maðurinn án afláts. Tungumálið gegnir því hlutverki að
viðhalda og varðveita heimsmynd og hugarheim okkar sem þjóðar. íslenzk
menning er ekki eitthvað sem var heldur eitthvað sem er. Og hún á sér ræt-
ur í fortíð og hún visnar ef klippt er á þessar rætur. Ég lít svo á, að eitt
helzta verkefni Háskóla íslands eigi að vera á sviði þjóðfræði og sögu, tungu
og menningar islenzku þjóðarinnar. Menningarsagan og saga íslenzks þjóð-
félags frá landnámsöld fram á okkar tíma á að skipa þar öndvegi. Verkefnin
eru óþrjótandi, og nú eru margir búnir að afla sér sérfræðiþekkingar á
þessum sviðum. Ég minni á, að verk Lúðvíks leggur okkur þá skyldu á
herðar að eignast hliðstæð verk um aðra þætti atvinnusögunnar, og er þar
fyrst að geta landbúnaðar. Og að því kemur að menn munu sameinast um
það verk að fella i kerfi rannsóknir á sambúð lands og þjóðar í ellefu aldir.
Margt hefur vel verið gert á fjölmörgum sviðum, en heildarverkið er enn
óunnið. Verk Lúðvíks minnir einnig á hve margt þar kallar á nýjar rann-
sóknir. Ég nefni sem dæmi rannsóknir á manneldi, rannsóknir á mikilvægi
fjörunytja fyrir manneldi og heilsufar, — og er útilokað að meta þýðingu
rekaviðarins fyrir þjóðarbúskapinn? Á hvem hátt var samfélagsgerðin tengd
breytingum á veðurfari? Hvernig breyttust hlunnindi einstakra landshluta
vegna breytinga á loftslagi, vegna rányrkju eða fyrir hirðuleysi? Hver vora
samfélagsleg áhrif eignarhalds kirkna og klaustra á hlunnindum um allt
land? Félagsleg áhrif þessara ítaka og jarðeigna er enn litt rannsakað efni.
Um ísland er stundum sagt i hálfkæringi, að það liggi á mörkum hins
byggilega heims en ekki sé alveg víst hvoru megin markanna það sé. ís-
land eins og flest önnur svæði jarðarinnar er á mörkum hins byggilega, og
hvoru megin það er ræðst af þeirri tækni, kunnáttu og hyggjuviti, sem íbú-
amir ráða yfir hverju sinni. ísland var t. d. ekki byggilegt fyrr en menn