Skírnir - 01.01.1984, Page 299
SKÍRNIR
293
DÓMUR í DAGSLJÓSI
um þau úr Elis sögn og Rósamundu og KonráÖs sögu og Orðabók Háskóla
íslands hefur dæmi um þau úr Nýrri Sumargjöf 1860 og reyndar fleiri dæmi
um „simfón".
Hverju eru menn þá bættari við þessa ágiskun höfundar um ákveðnar
„rætur"?
Á 189. bls. í ritgerð sinni segir höfundur:
„Sögnin um smjörvalinn sem hér er notuð er sótt í þjóðtrúna." Síðan til-
færir hann hlið við hlið texta úr Hinu Ijósa mani og Skaftfellskum þjóð-
sögum og sögnum sem komu út 1946.
Augljóst er að skáldið notfærir sér þessa þjóðtrú, en hér hefði einnig mátt
vísa til Þjóðsagna Jóns Árnasonar II, Leipzig 1864, 554. bls., sem tilfæra
dæmi um sömu þjóðtrú.
Annað þjóðsagnaminni fjallar höfundur um á 103. bls. í ritgerð sinni þar
sem hann ræðir um það minni í tólfta kafla „Klukkunnar" að duggarar
keyptu rauðhærð karlbörn af landsmönnum og rekur ritgerðarhöfundur það
til frásagnar i Þjóðsögum Jóns Árnasonar en vísar jafnframt neðanmáls
til um notkun þessa minnis í Manni og konu, Ljósi heimsins og Skiþum heið-
rikjunnar. Hér hefði höfundur einnig mátt vísa til frásagnar Halldórs Lax-
ness sjálfs í Dagleið á fjöllum, Rvk. 1937, 330. bls., þar sem skáldið rekur
nokkrar sagnir er það heyrði á ferðalagi um Vestfirði:
„Á Sæbóli í Aðalvík var rauðhærður niðursetningur seldur til beitu. Hann
var bundinn við mastrið og höggvið úr honum stykki eftir þörfum, óhljóð
hans heyrðust í land í nokkra daga, síðan ekki söguna meir.“
Hefði tilvísun til þessarar frásagnar og verið í samræmi við það að ritgerð-
arhöfundur vísar til þessara vestfirsku sagna, er Halldór Laxness birti í
Dagleið á fjöllum, þar sem hann á 174.—175. bls. í ritgerð sinni fjallar um
fjórða kafla Hins Ijósa mans og tilfærir þá úr Dagleið á fjöllum sögn um
drykkfelldan prest í Önundarfirði sem hliðstæðu við sölu Magnúsar í
Bræðratungu á Snæfríði.
Á 195. bls. segir:
„Orð Arnæusar „ . . . yðar frómheit . . .“ (133) kunna að vera þegin úr
bréfi Brynjólfs Sveinssonar biskups til Tómasar Nikulássonar fógeta."
Og á 293. bls.:
„Orðalagið „yðar góðvild" hér á undan er líklega þegið úr bréfi Brynjólfs
Sveinssonar biskups til Tómasar Nikulássonar fógeta á Bessastöðum."
Þó að látinn sé liggja á milli hluta sá áherslumunur, sem ritgerðarhöf-
undur leggur á líkindi þess að skáldið hafi á þessum stöðum notfært sér
ákveðna fyrirmynd, var a.m.k. „yðar frómheit" svo almennt kurteisisávarp
á sögutímanum að hæpið er að bendla það við ákveðinn texta.
Af sama toga er það er ritgerðarhöfundur rekur orðasambandið „að taka
til ekta“ til ákveðins annáls (250. bls.). Hér er enn um svo almennt orðfæri
fyrri tíma að ræða að beinlínis getur orkað villandi að vera með getgátur
um ákveðnar fyrirmyndir. Svipað gildir um „sælu húsmóður" og „sæla föð-
ur“ á 331. bls.