Skírnir - 01.09.1991, Blaðsíða 18
280
EINAR MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
göslast áfram í einhverri ósjálfráðri skrift, eins og súrrealistarnir
gerðu nokkrum öldum síðar, skipti það ekki síður máli fyrir
túlkun verksins að skilgreina slíka ritlist og þau hugmyndatengsl
sem henni kynnu að fylgja.
Nú getum við tekið dönsku fræðimennina trúanlega að því leyti,
að Konungsskuggsjá er ólík ýmsum erlendum heimspekiritum frá
sama tíma á þann hátt að hún er ekki byggð upp eftir neinu
ákveðnu kerfi sem kemur skýrt í ljós í framvindu verksins. En í
textanum kemur eigi að síður fram sú hugmynd, að nauðsynlegt sé
að fylgja einhverjum ákveðnum efnisþræði: talað er um „réttan
framgangsveg upphafðrar ræðu“ (bls. 78-79),3 sem virðist hreinlega
vera skilgreining á slíkum þræði, gerður er greinarmunur á þessum
„framgangsvegi" og „glósum“ sem séu útúrdúrar, og einnig er
minnst á að „gæta efnis upphafðrar ræðu“ (bls. 86) og „hverfa aftur
til upptekinnar ræðu“ (bls. 87) eftir slíkan útúrdúr. Loks segir
höfundur í formála, að ef lesendum finnist eitthvað vanta í bókina,
megi þeir bæta því inn í hana „með góðri skipan“ (bls. 2). Verður
ekki betur séð en þessi orð eigi að skilja svo, að menn eigi að gæta
þess að viðaukarnir falli rétt inn í uppbyggingu verksins.
Þetta virðist allt heldur mótsagnakennt, en til að leysa þennan
vanda liggur beinast við að athuga, hvort höfundur Konungs-
skuggsjár hafi ekki fylgt einhverri „skipan" eða „framgangsvegi"
sem sé þó talsvert öðru vísi en fræðimenn nútímans eigi von á og
byggður á einhverjum öðrum reglum. Hafi þessi skipan því farið
fram hjá þeim og þeir haldið að samsetning verksins væri einfald-
lega losaraleg. Þessi tilgáta fannst mér spor í rétta átt, en þá stóð ég
vitanlega frammi fyrir þeim vanda, hvaða aðferðum væri hægt að
beita til að skilgreina þessa efnisskipan, eða þræða mig áfram eftir
„framgangsvegi“ höfundarins sjálfs.
Þegar ég var fyrst að fást við þennan hnút, voru strúktúral-
istarnir frönsku mjög á dagskrá í Evrópu, og þar sem þetta
rannsóknarefni virðist þeim skylt, gætu menn haldið að einfaldast
hefði verið að leita í smiðju til þeirra. Af því hafði ég þó ekki nema
takmarkað gagn á þessu sviði. Strúktúralistar, a.m.k. af fyrstu
kynslóðinni, virtust hafa mestan áhuga á því að tína einstök atriði
út úr textum af ýmsum gerðum - Lévi-Strauss fjallaði t.d. sjaldan
3 Allar tilvísanir eru í Konungs skuggsiá, útg. Ludvig Holm-Olsen, Osló 1983.