Skírnir - 01.09.1991, Blaðsíða 170
SKÍRNIR MANSÖNGURJ. ALFRED PRUFROCKS 432
Og hefði það þá verið ómaksins vert
eftir bolla og te og sultukrukkur
og postulín, þar sem pískrað er um okkur,
hefði það verið ómaksins vert
að brosa, segja það er búið og gert,
að vefja allan heiminn í einn hnykil
og velta í átt að spurningu ógnarstórri,
að segja: „Eg er Lasarus, risinn frá dauða,
ég skal segja ykkur allt, gefa ykkur lykil“ -
Ef maður hagræddi höfði hennar á púða
og segði, „Þetta átti ég alls ekki við.
Það var alls ekki þetta sem ég átti við.“
Og hefði það verið ómaksins vert, að lokum,
hefði það verið ómaksins vert,
eftir sólsetur, dyragættir, regnvot stræti,
skáldsögur, tebolla, pilsaþyt sem við gólf má heyra -
þetta, og ótalmargt fleira? -
Að tjá hug minn allan er ekki á mínu valdi!
En segjum að töfralampi sýni taugamynstrið á tjaldi:
Hefði það verið ómaksins vert
hefði maður hagrætt púða eða dregið af sjal,
hallað sér upp að glugganum og sagt:
„Þetta átti ég alls ekki við,
það var alls ekki þetta sem ég átti við.“
Ég er ekki Hamlet, átti ekki heldur að vera;
ég er hirðmaður sem hafa má til skrauts
í föruneyti og til að hefja þrætu,
gefa prinsinum ráð, ugglaust verkfæri þjált,
lítillátur, ligg ekki á aðstoð minni,
varkár, slægvitur og vandfýsinn,
býsna háfleygur, en dálítið tregur,
stundum reyndar alveg fáránlegur,
stundum næstum alveg algert Fífl.