Skírnir - 01.09.1991, Blaðsíða 225
SKÍRNIR
HIN TVÍSÝNA YFIRVEGUN
487
sjónum að þeim efnum þar sem rök Páls leika á þynnri þræði. Stöldrum í
svip við greiningu hans á tveimur algengum hugtökum, sannleika og ást.
Ein af eftirminnilegustu ritgerðum Páls er „Hugleiðing um listina,
trúna og lífsháskann" sem á köflum er svo vel skrifuð að minnir á inn-
blásinn skáldskap (P, 117-127). Þar deilir hann á tómhyggjuna sem veður
uppi í heiminum, kenninguna um markleysi og fánýti mannlífsins er
ýmist bölvar hlutskipti okkar í sand og ösku eða leysir það upp í flugelda
af fyndnum fjarstæðum. Tveir „mikilvægustu hættir manna á því að rísa
upp gegn fjarstæðunni og takast á við lífsháskann" segir Páll að séu listin
annars vegar en trúin hins vegar (P,121). I Siðfræði sinni segir Páll réttilega
um listina að hún miðli okkur „hafsjó af táknum og líkingum" og hafi
áhrif sem geti „hjálpað okkur til að skilja það sem fyrir okkur ber og til að
vega og meta staðreyndir lífsins" (S,23). Þessu hygg ég að fáir geti verið
ósammála. En í lokin á fyrrnefndu andófi hans gegn tómhyggjunni gengur
Páll miklu lengra:
Engin vísindi, engin heimspeki, engin tækni getur fyllilega skýrt
eða varpað ljósi á þann sannleika sem er að verki í sambandi manns
og heims. Listin ein getur sýnt okkur þetta samband sem er
veruleiki okkar, sannleikurinn um stöðu okkar í heiminum (P,126).
Páll virðist hér undir sterkum áhrifum frá umfjöllun Heideggers um sann-
leikshugtakið og tekur raunar dæmi hans um mynd Van Goghs af slitnum
og margþvældum skóm bóndakonu. Þetta listaverk á, að dómi Heideggers
og Páls, að sýna okkur hvað „skór eru í sannleika". Hvaða sannleika er þá
verið að tala um? Jú, að því er virðist sannleika í sömu merkingu og við
fáumst við í heimspeki og vísindum, aðeins dýpri og hreinni: afhjúpun á
sambandi manns og heims: „Það sem er að verki í listaverkinu er
sannleikurinn - sannleikurinn {...} sem afhjúpun veruleikans“ (P,127).
Mér er næst að halda að það sé fyrir freistingar stílsins sem Páll víxlast
hér í lokin upp af hlemmiskeiði heimspekinnar og tekur að valhoppa eins
og skáld! Því eigi að taka orð hans bókstaflega stangast þau öldungis á við
hinn hversdagslega (og vísindalega) skilning sannleikshugtaksins sem
hann rekur samviskusamlega í annarri ritgerð. Þar er sannleikurinn
einfaldlega skilinn sem „samsvörun staðhæfinga okkar eða dóma við það
sem er“ (P,138). Sannleikurinn í þessum óbrotna, rétta skilningi er
eiginleiki setninga og ræðst af því hvort þær samsvara veruleikanum. Hitt
er svo annað mál að orðið „sannur“ getur haft margvíslega aðra merkingu
í málinu. Við gleðjum náunga okkar stundum með því að kalla þá „sanna
vini“, þ.e. trausta, falslausa, og við kunnum að lýsa frásögn ólánsmannsins
af raunum sínum sem „sannri", þ.e. einlægri og hispurslausri. En það er
meira en lítið villandi að kalla þessi eða önnur afbrigði „dýpri“ skilning
þess sannleikshugtaks sem er að verki í vísindum. Við skiljum hvað átt er
við með „sannleika" skónna í málverkinu, alveg eins og við skiljum hvað