Skírnir - 01.09.1991, Blaðsíða 231
SKÍRNIR
HIN TVÍSÝNA YFIRVEGUN
493
lagakenningin miklar fyrir sér hið náttúrlega réttlæti sem veltur á stöðu
okkar og tilgangi, sáttmálakenningin frelsi manna til að komast að sam-
komulagi um sambúðarhætti sína og framfylgja því; og að lokum sér
heillakenningin ofsjónum yfir umhyggju okkar fyrir hamingju annarra
eða heildarhamingju heimsins. Það frumlegasta í umfjöllun Páls er síðan
að halda því fram að engin þessara kenninga sé algóð eða alvond, og að í
raun brjóti þær ekki í bág hver við aðra, heldur verðum við að hafa
hliðsjón af þeim öllum í siðferðilegri ákvörðun:
Samkvæmt þessu dugar engan veginn að fylgja einni kenningunni
og hafna hinum, heldur þurfum við að hugsa samtímis í anda allra
þeirra og láta þær styðja hver aðra. Þegar taka skal ákvörðun er
þetta best gert með því að láta réttlætið koma fyrst, svo frelsið og
loks kærleikann. [...] Þegar við tökum siðferðilega ákvörðun er
líklegt að við þurfum að taka mið af öllu þrennu. (5,158-159)
Páll tekur sjálfur fram að þessar þrjár kenningar, eins og hann lýsir
þeim, samsvari ekki nákvæmlega kenningum ákveðinna siðfræðinga
(5,150), þótt nokkuð megi giska til grassins þegar maður sér kólfinn. Þetta
gerir mér hins vegar erfiðara um vik en ella að festa hendur á sáttahyggju
hans. Hugum þó að eftirfarandi dæmi: Skammt utan við bæjarfélagið þar
sem ég bý er almenningur. Þar er gott berjaland sem ég sæki á hverju
hausti með fjölskyldu minni. Okkur þykja berin þaðan gómsætari og
safaríkari en af öðrum stöðum. Nú gerist það að einkafyrirtæki slær eign
sinni á þennan almenning, með samþykki bæjaryfirvalda, og hefur þar
byggingaframkvæmdir. Eg tek þetta óstinnt upp og tel athæfið ef ekki
löglaust þá a.m.k. siðlaust. Þar sem ég er ekki vel heima í siðfræði leita ég á
náðir talsmanna þriggja helstu kenninganna, eins og Páll hefur lýst þeim.
En þá fer í verra: Þeim ber ekki saman. „Náttúrulagasinninn" segir mér að
fyrirtækið sé í fullum rétti þar sem það hafi skilið eftir nóg af jafngóðu
berjalandi annars staðar í héraðinu og því einungis nýtt sér þá kosti sem
staða þess heimilaði. „Sáttmálasinninn" er samúðarfyllri en bendir mér á
að ég hefði einfaldlega þurft að vera fyrri til að gera samning við
bæjaryfirvöld um ráðstöfunarrétt landsins; gert sé gert og orð verði að
standa. „Heilla-karlinn“ fyllir hins vegar marga dálka með tölum um gæði
og böl og kemst loks að því að framkvæmdirnar valdi meiri óhamingju en
hamingju og fyrirtækið sé því ekki í nokkrum rétti.
Hverju á nú að trúa? Með öðrum orðum: Hvernig á að leysa úr þessu
eða öðrum (og ef til vill raunhæfari) úrlausnarefnum þar sem boð
kenninganna þriggja stangast á? Lausnarorð Páls er dómgreind okkar:
með henni eigum við að rýna í öll rökin með og móti og komast að
niðurstöðu. Nú er ég ekki, fremur en Páll, siðferðilegur bókstafstrúar-
maður og fellst því á hina ríku þörf fyrir að hvessa dómgreindina svo að
við megum beita siðaboðum með skynsemi á veruleikann. En ætlar Páll