Skírnir - 01.09.1991, Blaðsíða 150
412
GÍSLIJÓNSSON
SKÍRNIR
aðeins tveir á öllu landinu (báðir í Barðastrandarsýslu), og 1801
hét enginn Islendingur þessu nafni. Brátt lifnaði nafnið við á ný, og
voru sex 1845, einn þeirra í Dölum, Aron Jónsson í Asgarði, 12
ára. Þessi bylgja hjaðnaði þó fljótt, en nafnið lifði. í þjóðskrá 1982
heita 14 menn Aron fyrra eða einu nafni. Enginn var skírður Aron
1960, en 1982 urðu þeir fimm, og hvorki fleiri né færri en 15 árið
1985. Nafnið er komið í tísku.
Á 19. öld færðust hér mjög í aukana kvenheiti sem ekki höfðu
sjálfstæða merkingu, heldur voru dregin af samsvarandi karlheitum
með erlendum endingum, svo sem -ía, -ína, -jana, -sína. Þetta er
ríkur þáttur í nafnspillingu aldarinnar fyrir erlend áhrif. Kvenheitið
Agústína barst hingað með Dönum. Nafnið er dregið af latneska
karlmannsnafninu Augustinus, en það var alfrægt dýrlingsnafn. Það
á svo rætur í latneska lýsingarorðinu augustus = virðulegur, mikill;
skylt ísl. auka. Octavianus keisari fékk þetta viðurnefni sem varð
geysivinsælt nafn norður um Evrópu í styttri gerð, Agúst (August).
Englendingar hafa að vísu mun meiri mætur á gerðinni Augustine
sem þeir stytta þó þrásinnis í Austin.
Engin íslensk kona hét Agústína hvorki 1703 né 1801, en 1845
voru þær sex, og helmingur þeirra hét Agústína að síðara nafni.
Leyna sér ekki erlend áhrif. Agústínur voru tvær í Dalasýslu 1845,
sjá tvínefnaskrá hér síðar. Konum með þessu nafni fór fjölgandi á
19. öld. Árið 1910 eru þær 67, 15 þeirra fæddar í ísafjarðarsýslu.
Síðan hefur þeim farið fækkandi, og er nafnið í litlum metum
síðustu áratugi, svo og önnur sem þannig eru mynduð.
Daði er erfitt nafn, uppruni og merking alls ekki ljós. Nafnið er
fornt, elstur Daði skáld Bárðarson, en hann er talinn af írskum
ættum. Hann er kallaður Dagur í sumum handritum Landnámu, og
þess vegna hefur mönnum dottið í hug að Daði væri gælunafn af
Dagur. Það þykir Ásgeiri Bl. Magnússyni ólíklegt.15 Vágslid dettur
í hug að þetta sé barnamál og merki faðir. Til er gerðin Dáði, og má
vera að þar leynist skýringartilraun. Árið 1703 voru 14 Daðar á
íslandi, flestir vestanlands, fimm þeirra í Dalasýslu og þar af einn í
Snóksdal eins og vera ber. Lengi voru svo Daðar innan við 20, en
hefur fjölgað skyndilega. Nafnið er mjög nýlega komið í tísku.
Enginn var svo skírður 1960, en tíu 1976 og 1982 og tólf 1985.
15 Islensk orðsifjabók, bls. 103.