Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2001, Side 19
Kristur var eini vinur minn
Guðríður og Guð
Höfundar leikritanna fara mismunandi leiðir í túlkun sinni og vil ég nefna hér
nokkur atriði sem skipta sköpum fyrir verkin í heild. Fyrst skal nefna trúaraf-
stöðu Guðríðar, en eins og áður hefur komið fram bera samtímaheimildir vitni
um staðfasta trú Guðríðar, sem reyndist uppspretta kjarks hennar og þolgæð-
is í útlegðinni.24 í leikriti Jakobs kemur eigi að síður fram mikið óöryggi hjá
Guðríði og jafnvel trúleysi. Allt frá upphafi leikritsins er Guðríður mjög ef-
ins um boðskapinn um Guð sem refsar börnum sínum fyrir óhlýðni og synd-
ugt líferni, en slík orð vekja ótta hjá þeim sem á hlýða. Frammi fyrir ógn
Tyrkjans lýsir Guðríður undrun sinni yfir því að hægt sé að treysta miskunn-
semi Guðs sem sífellt leitar eftir tækifærum til að hirta vesæl börn sín.25 í út-
legðinni er Guðríður orðin blendin í trúnni og er af samlöndum sínum sökuð
um skurðgoðadýrkun,26 en samkvæmt þjóðsögunum átti hún að hafa flutt með
sér skurðgoð til íslands og haldið áfram að tilbiðja það á laun, eiginmanni
sínum til mikillar gremju.27 Það er síðan dauði Sölmundar sem breytir óvissu
Guðríðar í hatur.28 Athyglisvert samtal Guðríðar og samlanda hennar, Jóns
Jónssonar að nafni, sem er fulltrúi hinnar réttu kenningar, á sér stað við bana-
beð Sölmundar.
Guðríður: Jeg sá sjera Jón Þorsteinsson deyja. Hann trúði á náðarhendur Guðs,
meðan ræningjar eyddu Vestmannaeyjar. En Guð hjálpaði honum ekki. - Guð agar
og straffar - en hverjum hjálpar hann?
Jón J.: Guðríður (hann signir sig) Þú syndgar gegn heilögum anda. Þjer verður
aldrei fyrirgefið.
Guðríður: Jeg bað ekki um fyrirgefningu. Jeg bað um líf drengsins míns. - En
það er kanske ekki von, að hann þyrmi mínum syni, þegar hann þyrmdi ekki sín-
um eigin, heldur ljet hann deyja á krossi.29
24 Tyrkjaránið á íslandi 1627 1906-1909, s. 420-21, 429-30.
25 Jakob Jónsson 1983, s. 9.
26 Jakob Jónsson 1983, s. 16.
27 Gestur Vestfirðingur V, s. 69-79; íslenskar þjóðsögur og œfintýri I, s. 467.
28 í leikriti Steinunnar deyr Sölmundur ekki sem barn, heldur þarf Guðríður að skilja hann
eftir, þar sem honum „hafði verið turnað“ (Steinunn Jóhannesdóttir 1995, s. 22). Sam-
viskubit Guðríðar vegna þess að hún yfirgefur son sinn spilar stórt hlutverk í leikritinu,
eins og vel kemur fram í eftirfarandi orðum Guðríðar: „Saklaus var ég hneppt í ánauð.
Sek varð ég þegar ég keypti mig fría“ (Steinunn Jóhannesdóttir 1995, s. 31).
29 Jakob Jónsson 1983, s. 17. Sambærilegur atburður á sér stað síðar í verkinu þegar fer að
bera á holdsveiki Hallgríms og Guðríður segir við hann: „Það er alltaf talað um reiði Guðs.
- En nú er það jeg, sem er reið - reið við Guð“ (Jakob Jónsson, s. 66).
17