Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2001, Page 35
Manngildiskenning Helmuts Thielicke
ábyrgðar. Thielicke lagði þá merkingu í mannvirðingu að hún byggði á ég-
þú tengslum. Kærleikur sem agape eflist í beinum, óskilyrtum, pesónulegum
tengslum. Kærleiksrík mannleg tengsl glata sérstöðu sinni verði þau felld í
kerfi. Thielicke hélt eindregið fram nauðsyn persónulegrar ábyrgðar og var-
aði við því að menn hefðu uppi tilburði til að koma sér undan þeirri ábyrgð
m.a. með því að varpa henni á stofnanir velferðarsamfélagsins.
4. Dignitas aliena gerir kröfu um félagssiðfrœðilega ábyrgð. Þrátt fyrir
töluverða tortryggni Thielicke gagnvart velferðarkerfinu vegna tilhneigingar
þess að grafa undan gagnkvæmri persónulegri umhyggju þá fólst það engu
að síður í túlkun hans á dignitas aliena að nauðsynlegt væri að kalla stjórn-
völd til félagslegrar ábyrgðar. Einkum hafði hann í huga skipulegar forvarn-
araðgerðir gegn fátækt, atvinnuleysi og öðrum þjóðfélagslegum meinsemd-
um. Miklu máli skipti að umhyggja fyrir öðrum mætti ekki verða skilin sem
góðgerðarstarfsemi, heldur væri markmið hennar að auka getu fólks til að
standa á eigin fótum og efla þanning sjálfsvirðingu þess.
5. Dignitas aliena er tengslahugtak. Áður hefur verið gerð grein fyrir því
í þessum texta, enda tengsl Guðs og manns kjarninn í túlkun Thielicke á „að-
fenginni tign“.
Hér verður látið staðar numið við að greina frá umfjöllun Karenar Lebacqz
um siðfræði Helmuts Thielicke.
Að lokum. Mannhelgi er lykilhugtak í kristnum mannskilningi. Mannhelgi
má skoða í þremur víddum, þríþættum tengslum sem hér eru talin mestu skipta
um mannlegt eðli.
í fyrsta lagi er maðurinn skapaður eftir Guðs mynd, til andsvars og ábyrgð-
ar í persónulegu samfélagi við Guð. I öðru lagi til samfélags í kærleika og
réttlæti við meðbræður sína og systur, og í þriðja lagi til trúmennsku við líf-
ríkið, Guðs góðu sköpun.
Helgaður skapara sínum, berandi mynd hans og líkingu, er manninum trú-
að fyrir þeirri einstöku köllun og ábyrgð að verða meðskapandi Guðs að þróa
og þroska mannlífið, bæði manneskjuna sem persónu og mannfélagið sem
vettvang menningar og réttlátrar þjóðfélagsskipanar.
33