Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2001, Page 38
Einar Sigurbjörnsson
daganna og birtust þær í postillu Guðbrands, Ein ny hús postilla, sem út kom
á Hólum 1597.4 Þær vísur eru aðrar en þær sem birtust í Vísnabók.
Fyrsti jólasálmur sr. Einars er ortur út af jólaguðspjalli Lúkasar (Lk
2.1-14).5 Vísa er í lok hans en annars er hann ortur við lagboðann „Til þín
heilagi herra Guð“ sem enn er að finna í Sálmabók og Sálmasöngsbók íslensku
þjóðkirkjunnar. Hinir jólasálmarnir eru ortir út af jólaguðspjalli Jóhannesar
(Jh 1.1-14).6 Annar er ortur undir hymnahætti en hinn við Liljulag eða sem
hrynhenda. Vísa fylgir hvorugum þeirra sálma.
Til viðbótar guðspjallssálmum jólanna birtast í Vísnabók tvö önnur jóla-
kvæði eftir Einar. Annað er „Ein vísa um fæðingu Krists og hennar gagn og
nytsemi"7, ort við lagið „Frelsarinn er oss fæddur nú“ sem er nánast sama lag
og „Syngi Guði himnahjörð."8 Hitt kvæðið er „Kvæði af stallinum Kristí sem
kallast Vöggu kvæði.“9 Það er ort undir víkivakahætti og mun vera þekktasta
kvæði sr. Einars. Hluti þess hefur verið í íslenskum sálmabókum frá 1945 og
var það í fyrsta sinni sem sálmur birtist eftir hann í íslenskri sálmabók og er
enn eini sálmurinn eftir hann í sálmabók þjóðkirkjunnar.10 11 Það sem varð til
þess að gera kvæðið vinsælt og olli því að það var tekið inn í sálmabók var
lagið góða sem Sigvaldi Kaldalóns gerði við kvæðið árið 1940 og nánar verð-
ur fjallað um síðar.
í síðari hluta bókarinnar er sjötta jólakvæðið. Það hefur þá látlausu yfir-
skrift: „Um jólatímann má þetta syngja.“n Látleysi yfirskriftarinnar er þó ekki
í samræmi við innihald sálmsins sem er mjög ríkt eins og síðar verður vikið
að. Lagboðinn er: „Allt mitt ráð til Guðs eg set,“ sem í núgildandi sálmasöngs-
bók nefnist „Guðs son kallar: Komið til mín!“
Eins og áður sagði endursegja sálmarnir þrír út af guðspjöllum jólanna
viðkomandi guðspjöll. Hinn fyrsti, fyrir jólanóttina, er ortur út frá Lúkasar-
guðspjalli 2.1-14. Vísan - tvær dróttkvæðar vísur - fylgja þeim sálmi og rek-
ur hin fyrri efni guðspjallsins en hin síðari er bæn:
4 Sjá Skúli Sigurður Ólafsson: „Fra reformation tilpietisme.“ Red. Sven Áke Lelander och
Christin Palmblad, K0benhavn (Nordisk ministerrád) 2001, s. 265-288. Luthersk
páskpredikan i Norden.
5 Vísnabók Guðbrands s. 9-10.
6 Vísnabók Guðbrands s. 10-12.
7 Vísnabók Guðbrands s. 98-99.
8 Sálmabók íslensku kirkjunnar. Reykjavík 1972 nr. 79; sbr. Sálmabók íslensku kirkjunn-
ar. Reykjavík 1997 nr. 723.
9 Vísnabók Guðbrands s. 123-125.
10 Sálmabók til kirkju- og heimasöngs. Reykjavík 1945nn nr. 69; Sálmabók íslensku kirkj-
unnar. Reykjavík 1972nn, nr. 72.
11 Vtsnabók Guðbrands s. 330-334.
36