Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2001, Page 58
Gunnlaugur A. Jónsson
á að þessi eilífi Guð sé athvarf mannsins. Að lokum skal hér birt fyrsta er-
indið sem sr. Valdimar Briem orti út af 90. sálmi Saltarans.
Vor drottinn guð um aldir alda
frá eilífð fram á þennan dag;
vort skjól og athvarf ótalfalda,
þú allan greiddir lífsins hag.
Þú áður varst en fjöllin fæddust
og fögur himinljósin glæddust,
frá eilífð guð til eilífðar.
Sjá, þúsund ár í tali tíða
svo títt hjá þjer sem dagar líða.
Ei heimsins tfmatal er þar.17
Ég hef löngum haldið því fram að sú ritskýring sé á villigötum sem lætur sig
engu varða það sem kalla mætti framhaldslíf biblíutextanna, hvernig þeir hafa
verið túlkaðir gegnum tíðana, hvernig þeir hafa orðið uppspretta nýrra ljóða
eða annars konar bókmennta, hvernig þeir hafa mótað daglegt líf fólks um
aldir og þá ekki síst á sviði menningar og lista. Ánægjuleg er sú breyting sem
hefur ríkulega gert vart við á allra síðustu árum þegar biblíufræðingar eru fyr-
ir alvöru teknir að gera sér grein fyrir mikilvægi þessa framhaldslífs textanna.
í íslensku samhengi finnst mér óhugsandi að fjalla um 90. sálm Saltarans
án þess að láta þess getið hvert framlag hans er til menningar okkar Islend-
inga og að hann hefur lagt okkur til efniviðinn í sjálfan þjóðsöng okkar.
Þjóðsöngurinn og sálmur sr. Valdimars Briem út af S1 90 eru dæmi um áhrif
Gamla testamentisins á íslenska menningar- og kristnisögu. Ritskýrendur hafa
löngum, með einhliða fornfræðilegri áherslu sinni, horft framhjá og vanrækt
hið athyglisverða og fjölbreytilega „framhaldslíf* biblíutextanna eða áhrifa-
sögu þeirra.
I þessari grein minni hefur fyrst og fremst vakað fyrir mér að benda á
þessa vanræktu þætti og leitast við að sýna fram á að þeir eigi erindi inn í rit-
skýringu sálmanna.
17 Davíðs sálmar í íslenzkum sálmabúningi eptir Valdimar Briem. Reykjavík 1898. Um
Valdimar og sálmakveðskap hans hef ég fjallað talsvert í öðru samhengi: Gunnlaugur A.
Jónsson, I hörðu og köldu landi. Samanburður á 30 sálmum Saltarans og sálmum sr.
Valdimars Briem (Fjölrit). Guðfræðistofnun 1994. Sami: „Heimfærsla í biblíukveðskap
sr. Valdimars Briem. Dæmi úr áhrifasögu Gamla testamentisins á íslandi." í: Milli him-
ins og jarðar. Maður, guð og menning í hnotskurn hugvísinda. Háskólaútgáfan 1997: 195-
210. Sami: „Um Davíðssálma sr. Valdimars Briem í tilefni af 150 ára afmæli hans.“ f:
Ritröð Guðfrœðistofunar 14,2000: 137-148.
56