Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2001, Side 157
Einar Sigurbjörnsson
Lilja
Erindi á málþingi um biblíuleg stef í íslenskum
fornbókmenntum*
I
Það er með nokkurri feimni sem ég stend hér upp til að fjalla um það merka
kvæði Lilju á þessu málþingi sérfræðinga um íslenskar bókmenntir. Ég er ekki
bókmenntafræðingur og mun enda ekki fjalla um kvæðið frá því sjónarmiði.
Lilja geymir á hinn bóginn ákaflega áhugaverða guðfræði og það er hún sem
mig langar til að deila hér með ykkur í dag.* 1 2
Innihald Lilju er lýsing á sögu heimsins frá sköpun til efsta dags. Eins og
einn útgefandi Lilju, Gunnar Finnbogason, komst að orði, er efni kvæðisins
„engum kristnum manni nýstárlegt.“3 Efni þess er að langmestu leyti sígild
stef kristinnar tilbeiðslu og guðfræði frá öndverðu og fram undir vora daga.
Það fjallar um sköpun manns og heims, fall mannsins, endurlausnina fyrir
Krist og endurkomu hans til dóms. Höfundur kvæðisins, sem hefðin nefnir
Eystein munk Ásgrímsson (d. um 1361), hefur verið lærður maður. í kvæð-
inu enduróma hugsanir lærðra manna ásamt efni kristinnar tilbeiðslu og lof-
söngs svo að úr verður skrautlegur, myndrænn vefur og auðvelt að sjá mynd-
irnar fyrir hugarsjónum sínum. Framsetningin fylgir Biblíunni og þeirri út-
leggingu Biblíunnar sem snemma tók að myndast í kirkjunni. Jafnframt
koma fyrir hugmyndir sem mótast höfðu í trúarlífi fólks og styðjast ekki við
beinar biblíulegar fyrirmyndir.
Lilja er kaþólskt kvæði en fyrst og fremst í þeim skilningi að hún geym-
ir almenn, sígild, kristin stef, sameiginleg öllum kristnum mönnum á öllum
* Skálholstsskóla 7. maí 2000
1 Erindi þetta var líka lesið upp í Þingvallakirkju á kristnihátíð, 1. júlí 2000.
2 Vésteinn Ólason fjallar um Lilju frá bókmenntafræðilegu sjónarmiði í mjög góðri grein:
íslensk bókmenntasaga II. Reykjavík 1993, s. 286-299; sjá og Guðrún Kvaran: Lilja
Reykjavík, 1969 (Lokaritgerð við Háskóla íslands).
3 Lilja. Útg. Gunnar Finnbogason, Reykjavík 1974, s. 10; texta Lilju tek ég úr þeirri út-
gáfu.
155