Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2002, Blaðsíða 74
Arnfríður Guðmundsdóttir
As a mother comforts her child, so I will comfort you; you shall be com-
forted in Jerusalem.
í nýju íslensku þýðingunni hljómar versið svona:
Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.
Hér er um athyglisvert dæmi að ræða vegna þess að í fyrri helmingi þess
hefur verið farin sú leið að þýða karlkynsorð með hvorugkynsorði. Þetta er
væntanlega gert á þeim forsendum að merking textans breytist ekki, það er
að segja að upprunaleg merking textans eigi ekki aðeins við um syni, heldur
líka um dætur, og því orðið börn verið valið, eins og í þeim erlendu
þýðingum sem ég nefndi hér að framan. En af hverju skyldi sama leið ekki
vera farin í síðari hluta versins, heldur valið að halda óbreyttri karlkynsmynd
frá 1981 um þá sem huggaðir verða? Huggaðir vísa þá til þeirra sem eru
ávarpaðir í textanum, sem eru „allir þér“ eða eins og segir í nýju þýðingunni
í v. 10-11 í sama kafla:
Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana, fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna,
svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
Myndmálið í þessum versum úr Trito-Jesaja (það er köflum 56-66) eins og
víðar í spádómsbók Jesaja, er af samskiptum móður og barns sem eiga að
endurspegla samskipti Guðs og ísraelsþjóðarinnar, en samt er karlkyninu
haldið til streitu þegar þjóðin er ávörpuð. Þetta er í samræmi við önnur dæmi
úr sömu bók og verða hér nefnd nokkur til viðbótar.
í upphafi 55. kafla stendur í nýju þýðingunni:
Komið, allir (NRSV: everyone) sem þyrstir eruð, komið til vatnsins og
þér, sem ekkert fé eigið, komið,
komið, kaupið korn og etið, komið, þiggið korn án silfurs
og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk.