Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2002, Blaðsíða 19
Guðfrœðingurinn og guðsmaðurinn Sigurbjörn Einarsson
bragðasögu við heimspekideildina um leið og hann sækir tíma í nýjatesta-
mentisfræðum við guðfræðideild Uppsalaháskóla. Hann hefði ekki getað
valið betur. Á þessum tíma er mikil gróska í guðfræðinni í Uppsölum. Með
stuttu millibili geysast hin gömlu menningarríki Evrópu fram á vígvöllinn og
heyja tvær heimsstyrjaldir. Svíþjóð er nálægt en utan við bein átök og því að
vissu leyti ákjósanlegur áhorfendapallur.
Við háskólann í Uppsölum er lagður grunnur að framsókn í guðfræði á
alþjóðamælikvarða, sem varpar frægðarljóma á sænska guðfræði, einkum á
seinni stríðsárunum og áratugunum þar á eftir. Sænskir guðfræðingar lögðu
til dæmis mikið að mörkum til rannsókna á ævistarfi og guðfræði Marteins
Lúthers, en fram að því hafði þungamiðja þeirra verið við þýska háskóla.
Þetta umhverfi heillaði Norðmanninn Anton Fridrichsen sem varð prófessor
í nýjatestamentisfræðum árið 1928 og tók hann fullan þátt í endurnýjun
sænskrar guðfræði með rannsóknum sínum og skrifum. í háskólabænum
Lundi voru það prófessorar í samstæðilegum greinum guðfræðinnar sem
gerðust sporgöngumenn í þessari viðreisn, menn eins og Gustaf Aulén,
Anders Nygren og Ragnar Bring. Þessir heiðursmenn eru kenndir við
Lundarskólann í guðfræði, sem er þekkt stærð í guðfræðisögu aldarinnar
sem leið.
Átök trúar og vísinda höfðu brunnið á skinni Sigurbjöms á menntaskóla-
árunum. Nútíminn og tækniframfarir heilluðu og gáfu í skyn farsælar lausn-
ir á vandamálum, sem fylgt hafa mannkyni frá örófi alda. Það varð æ algeng-
ari skoðun að kristindómurinn væri úrelt hugmyndastefna og kirkjan aflóga
og þvældist bara fyrir mannbótum og framforum. Margra grasa kenndi í
trúarflórunni í Reykjavík á þriðja og fjórða áratugnum og ýmislegt gert
annað hvort til að bjarga kristindómnum eða útrýma honum. Sigurbjörn tók
þetta allt nærri sér.
Heilum úr þessari hringiðu, með stefnuna í rétta átt, er honum kastað í
aðra hringiðu, stærri og meiri. Hann kynnist náið og betur en flestir landar
hans afleiðingum fyrri heimsstyrjaldarinnar, sem í einu vetfangi hrinti um
koll undirstöðum blindrar trúar Vesturlandabúa á mátt og megin nútímans í
vísindum, menntum og efnalegum framförum. í kjölfar heimskreppu og
óstöðugs stjórnmálaástands sigldu þjóðríki evrópskrar hámenningar öðru
sinni hraðbyri að heimsstyrjöld.
Trúin á stanslausar framfarir og sigur hins góða í manninum og mannfé-
laginu hafði orðið fyrir slíku áfalli að hún átti sér ekki afturkvæmt í sömu
mynd meðal hugsandi manna. Menn þurftu að skoða forsendurnar upp á
nýtt, voru neyddir til þess í þeirri upplausn sem stríðið, grimmdin og
fordómarnir höfðu valdið.
17