Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2008, Blaðsíða 10
astliðin tuttugu ár. Tilgangurinn með því á þessum tímamótum er fyrst og
fremst að benda á þann mikla brunn þekkingar og fræða sem áfram er hægt
að sækja í þar sem öll heftin eru enn fáanleg. Nýjir áskrifendur geta því eign-
ast Ritröðina í heild sinni og er það von ritstjórnar að glæða megi áhuga fleiri
á Ritröðinni með því að gera þetta efni sýnilegt með þessum hætti.
Fyrstu tvær greinar þessa heftis koma frá erlendum guðfræðiprófessorum
sem sóttu Island heim fyrr á árinu. Sú fyrri fjallar um trú, trúleysi og guð-
leysi og í samtímanum og byggir á fyrirlestri enska prófessorsins Alister E.
McGrath. Óhætt er að fullyrða að það efni hefur verið ofarlega á baugi bæði
hérlendis og eriendis um nokkra hríð. Síðari erlenda greinin sem skrifuð er
af bandaríska prófessornum Gordon W. Lathrop fjallar um hlutverk prests-
ins sem leiðtoga í samtímanum með vísun í Nýja testamentið og til þeirrar
gagnrýni sem þar kemur fram á leiðtogahlutverkið. Gordon Lathrop sem
er lútherskur sérfræðingur í lítúrgískum fræðum hélt námskeið á vegum
guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og þjóðkirkjunnar síðastliðið sumar í
Skálholti en hann hefur oft komið til Islands á liðnum árum, haldið nám-
skeið og flutt fyrirlestra.
Sagnfræðingurinn Auður Ingvarsdóttir ræðir hvernig merkja megi breyt-
ingar á kristnum trúarskilningi, í átt að meiri réttrúnaði, eftir því sem lengra
leið frá lögleiðingu kristins siðar í grein sinni „Kristni magnast - ritskoðun
og bragarbót á miðöldum“. Ásdís Egilsdóttir, dósent í íslenskri miðaldasögu,
fjallar um kraftaverkasögur og ljóð sem tengjast Maríu mey í greininni
„Drottning dýrðar“. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í gamlatestament-
isfræðum, veltir fyrir sér hvort og þá hvers konar guðfræðileg hugsun liggi
til grundvallar niðurröðun sálmanna í Saltaranum í greininni „Frá leiðsögn
til lofsöngs“. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu, ræðir um vísanir
og lífssýn í ljóðum Snorra Hjartarsonar í greininni „Blær vertu, ljóð mitt,
í sefmu við Styx“. Sr. Sigurður Árni Þórðarson fjallar um guðsmyndir í
Vídalínspostillu í greininni „Guð og Vídalínspostilla". Að lokum skrifar
Bjarni Randver Sigurvinsson, mastersnemi í guðfræði, ítarlegan ritdóm um
bókina Ranghugmyndir Richards Dwarkins eftir Alistair McGrath og Joanna
Collicut McGrath. Hér er því um fjölbreytilegt efni að ræða og er það von
mín að lesendur finni allir eitthvað við sitt hæfi.
Sólveig Anna Bóasdóttir ritstjóri
8