Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2008, Blaðsíða 103
Sigurður Arni Þórðarson
Guð og Vídalínspostilla
Hver er Guð? Hvernig er hægt að tala um Guð? Svörin við slíkum spurningum
eru mörg. Trúarreynsla fólks er fjölbreytileg og hefur verið um allar aldir.
Guðsreynsla fólks litast af persónugerð og hefðum, sem fólk hefur verið alið
upp í og lifir við. Svo skiptir kyn, aldur og reynsla líka máli þegar reynsla er
túlkuð með hjálp orða og máls. Sumir telja sig upplifa guðsáhrifin skýrast
í náttúrunni, aðrir verða fyrir sterkri afturhvarfsreynslu og ganga á hönd
einhverju túlkunarkerfi, sem mótar trúarskilning.
Já, hver er Guð og hvernig er hægt að tala um Guð? Hefur einhver skilið
Guð? Við þessar spurningar hafa trúmenn glímt um aldafjöld. Skynsemi
manna og skynjun er takmörkuð. Við erum ekki alvitur og því er guðfræði
okkar ekki fullkomin lýsing Guðs. Það er ekki svo einkennilegt. Þekkjum
við okkur sjálf fullkomlega? Þekkjum við undirvitund okkar eða hræringar
líffæranna? Þekkjum við hverja tilfinningu og hugsun maka eða barna
okkar? Nei, og ef við þekkjum ekki sjálf okkur getum við vart haldið fram,
að við þekkjum Guð algerlega. Hinn kristni maður heldur í opinberun í
Jesú Kristi og trúir, að í honum beri Guð vitnisburð um sig.
Við notum gjarnan líkingar þegar við tölum um Guð. Við tölum um
Guð sem Ijós eða sem ást. Guði er oft lýst sem konungi, föður, dómara eða
móður. I Biblíunni er ríkulegt líkingasafn um Guð, sjóður sem trúmenn
um allar aldir hafa gengið í, endurunnið og einnig bætt við. Nýjar líkingar
hafa sprottið fram og fallið að smekk og þörfum hverrar tíðar til að boða
Guð og opna nýjan skilning og dýpka tilbeiðslu. Líkingar eru börn tímans.
Sterkar líkingar eiga sér vaxtartíma og blómaskeið en daprast og veiklast
síðan í þróun menningar og sögu. Jafnvel líkingar um Guð hverfa, ef þær
ná ekki lengur að “kveikja ljós” trúar, skilnings og tilbeiðslu.