Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2008, Blaðsíða 112
Sá eldur brennur fyrir þeim sem Guð hatar, allt til neðsta helvítis. Guð
býr í dýrðarljóma, í ljósi sem enginn færi komist til af sjálfsdáðum. Guð er
hreinleiki sem ekkert saurugt þolir við hástól sinn. Ef hreinleikinn er ekki
til staðar mun eldur gleypa hið sauruga (392, 414). Þá eru lýsingar á hátign
Guðs algengar í postillunni. Guði er lýst sem Guði hæða og hásetu. Guð býr
í hátignarsal og frá honum verður ekki flúið því hátign hans felur jafnframt
í sér yfirlit og nærveru (200, 273). Tengt hátign eru síðan hinar hefðbundnu
guðfræðilegu nefningar um alvitund Guðs, almætti, eilífð, ómælanleika og
hversu Guð sé órannsakanlegur.
Guð - skapari og löggjafi
Guði er gjarnan lýst í Vídalínspostillu sem viljaveru sem bæði ákvarðar gerð
og eðli sköpunar, en einnig sem löggjafa. Vilji Guðs er ofar öllu í krafti
tignar og forræðis Guðs. Menn hafa að sjálfsögðu rétt til viðbragða og skapa
sér eigin örlög. En þegar grannt er skoðað er kenning postillunnar sú að
mönnum sé fyrir bestu að hlíta vilja og skikkan Skaparans.
Vídalín kennir, að Guð skapi aðeins það sem er gott og nytsamlegt.
Allt sem menn þiggja af Guði er til góðs (86). Guð skapar bæði himin og
jörð og veitir öllu lífi þau gæði sem þörf er á til hamingjuríks lífs, líkama,
önd, ráð, skilning, elsku, fæðu, fögnuð og alla saðningu manna og skepnu.
Markmið sköpunar er friður milli Guðs og manna. Vídalín telur þennan
frið mikilvægari en frið milli manna (57). Oll skikkan í heiminum er Guðs
gjöf, foreldrar og samfélagsskipan. Við eigum því að hlýða foreldrum og vera
sönn í samfélagi (138). Guð mun ekki láta af að útdeila mönnum gæðum
og mætti. Guð mun ekki þreytast þótt menn verði örmagna, ekki verða
snauður þó menn verði uppiskroppa. Guð mun að lyktum bjóða mönnum
til veislu með sér á himnum (134, 167, 260).
Vídalín minnir á, að enginn konungur er bundinn af lögum sem hann
hefur sett. Konungum er heimilt að rétta lögin og endurskoða með hliðsjón
af nýjum aðstæðum. Ekki fremur en veraldlegir konungar er Guð bundinn
af þeirri skipan sem hann hefur komið á, þó menn séu bundnir. Lög
Guðs tengjast hinum hulda vilja sem maðurinn fær ekki skilið, en Guð
skilur (213). Þar sem Guð er alvitur stjórnandi veit Guð hvað mönnum
er fyrir bestu (235). I orði sínu hefur Guð opinberað vilja sinn og speki,
110