Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2008, Page 69
Sem krýnd himnadrottning varð María jafnframt tákngervingur dýrðar
og valds kirkjunnar. Lofgjörð til himnadrottningarinnar kemur víða fram
í kveðskap miðalda. Þannig hljómar hún í Lilju, sem er reyndar ekki
eiginlegt Maríukvæði, en þar er þó að fmna einhvern fallegasta kveðskapinn
sem ortur hefur verið til dýrðar Maríu á íslensku:
Heyr þú mig nú, himins og jarðar
háleit byggðin allra dygða,
megindrottningin manna ok engla,
móðir Guðs ok blessun þjóða.
þá eg mæðumst í nógum nauðum,
nálæg verð þú. Mína sálu
vef þú ágætu verndarskauti,
von mín sönn, er hjálpar mönnum.9
Fjöldi Maríukvæða, einkum frá 14. og fram á 16. öld, hefur varðveist í
íslenskum handritum. Elsti kveðskapurinn um Maríu sem eignaður hefur
verið íslensku skáldi eru Maríuvísur eftir Kolbein Tumason, en nú eru 800
ár frá falli hans. Maríuvísur hans hafa því miður ekki varðveist. Maríukvæði
síðmiðalda eru ýmist jarteinasögur sem snúið hefur verið í bundið mál, eða
tilbeiðslu- eða lofkvæði. Ort er um fögnuðina fimm, sem eru boðunin,
fæðing Krists, upprisa hans, uppnumning Maríu og innganga í himnaríki.
Þannig er ort um uppnumninguna í einu þessara kvæða:
Fimmta birti eg fögnuð þenna
fríðust gimsteinn allra kvenna,
syndir lætur af seggjum renna
Signuð jungfrú Máríá.
Dýrðina þína Drottins móðir
diktuðu og sungu englar góðir,
hafin var upp á himna slóðir
hreinust jungfrú Máríá10
9 Lilja. Krists konungs drápa tírœð. Reykjavík 1992. (86. erindi), 97.
10 Mariukver, 152 - 153.
67