Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2008, Page 152
Þeir Dawkins og McGrath eru á svipuðu reki (sá fyrr nefndi fæddur
1941 og síðar nefndi 1953), með sambærilega menntun í náttúruvísindum
og með prófessorsstöðu við sama háskóla. Sjálfur segist McGrath hafa
verið guðleysingi eins og Dawkins en hann hafi komist til kristinnar trúar
á námsárum sínum við Oxford háskóla snemma á áttunda áratugnum
þegar honum hafi orðið ljós sú mikla dýpt sem hún byggi yfir og hnökrar
þeirrar marxísku trúarbragðagagnrýni sem hann hafði áður aðhyllst.
Áhugi McGraths á kristindóminum hafi því smám saman leitt hann frá
sameindalífeðlisfræðinni yfir til guðfræðinnar sem hann hafi ólíkt Dawkins
menntað sig í en það hafi samt ekki komið í veg fyrir að hann hafi fylgst
áfram með þeim fræðum sem hann hafði upphaflega sérhæft sig í.
Bókin Ranghugmynd Richards Dawkins er tiltölulega stutt, aðeins 124
bls. í smárri kilju með aðgengilegri textastærð. Henni er skipt í fjóra hluta
auk inngangs þar sem McGrath ræðir skilning Dawkins á guðshugtakinu,
hvort vísindin hafi afsannað tilvist Guðs, uppruna trúarbragða og hvort
trúarbrögð geti talist ill. í raun er hér í megindráttum um að ræða ritdóm
um bók Dawkins, The God Delusion, sem hefði verið hægt að birta sem
tímaritsgrein. Sjálfur segist McGrath aðallega hafa skrifað bókina með
almenning í huga og þá ekki síst þann markhóp sem Dawkins hafi náð
til (þótt búast megi við að stór hluti lesendahópsins eigi eftir að koma úr
röðum kristinna) og einskorðar hann umfjöllun sína við þau megin atriði
sem hann telur aðfinnsluverð hjá honum og þá ekki síst orðræðu hans og
aðferðarfræði. Itarlegri umfjöllun um margt af því sem um ræðir sé hins
vegar að finna í fjölda annarra bóka sem McGrath hefur skrifað eða vísar
til.
Strax í byrjun bókarinnar áréttar McGrath aðdáun sína á færni Dawkins í
að gera náttúruvísindi aðgengileg almenningi og lætur raunar Dawkins sjálfur
þess getið í bókinni The God Delusion að skrif McGraths um bækur hans
í náttúruvísindum séu óvenju sanngjörn.7 McGrath gagnrýnir hins vegar
Dawkins fyrir að hafa á síðari árum vikið frá þeim fræðum sem upphaflega
gerðu hann heimskunnan, þ.e. að kynna náttúruvísindi fyrir almenning, og
snúið sér í staðinn að ómálefnalegri boðun trúarlegs guðleysis. Markmið
7 Dawkins, Richard: The God Delusion. Black Swan. London. 2007. Bls. 78.
150