Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2008, Page 157
öðru verra, trúarbrögðum sem þeir séu á móti. Þannig sé enginn eðlismunur
á bókstafstrú þessara guðleysingja og bókstafstrú meðal kristinna, múslima
eða fólks af öðrum trúarbrögðum. McGrath orðar þetta á þá leið að það sé
sem bókstafstrúarmenn meðal guðleysingja upplifi „angist yfir því að innra
samhengi guðleysis sé ógnað“20 vegna þess hversu margir hafi sannfærst um
að heimssýn þeirra sé meingölluð og trúarbrögðum hafi vaxið fiskur um
hrygg víða um heim. McGrath segir undir lok bókar sinnar: „Það er eins
og The God Delusion sé fremur hugsuð til að stappa stáli í guðleysingja sem
eru orðnir reikulir í trúnni en að vera sanngjarnar, nákvæmar rökræður við
trúaða og fleiri sem leita sannleikans. ... Það er hin djúpstæða angist hvað
varðar framtíð guðleysis sem skýrir „áberandi kreddufestu" og „árásagjarna
mælsku“ þessarar nýju veraldlegu bókstafstrúar. Bókstafstrú getur vaknað
þegar heimssýn eða lífsskoðun finnur sig í háska, vegur að óvinum sínum
þegar eigin framtíð er ógnað. The God Delusion er leikverk fremur en
fræðiverk ...“21
Greining McGraths á boðun og starfsháttum Dawkins og margra
fylgismanna hans sem bókstafstrúarhreyfingu meðal guðleysingja er í
samræmi við þau sjónarmið margra trúarlífsfélagsfræðinga að bókstafstrú
sé fyrst og fremst róttæk andstaða gegn félagslegum breytingum þar sem
reynt er — oftar en ekki með skipulögðum hætti - að standa vörð um
þá heimsmynd og þau siðferðisgildi sem talin eru í hættu með því að
leggja ofuráherslu á þau grundvallaratriði sem ekki megi kvika firá. Þess
eru jafnvel dæmi að trúarlífsfélagsfræðingar hafi túlkað tilkomu slíkra
bókstafstrúarhreyfinga sem dauðateygjur trúarviðhorfa og heimsmyndar
sem séu að riða til falls. A.m.k. er ljóst að ýmis félög guðleysingja hafa
tekið málflutningi Dawkins fagnandi og lagt sitt að mörkum til að koma
sjónarmiðum hans á framfæri við almenning, auk þess sem Dawkins sjálfur
hefur tekið upp samstarf við ýmis skoðanasystkini sín í baráttunni gegn
trúarbrögðum og skipulagt samtök og herferðir í þeim tilgangi. Þannig er
Dawkins t.d. sérstakur stuðningsmaður The OUT Campaign, hreyfingar
20 Islenska þýðingin á bls. 107 er hér notuð orðrétt en orðinu „vantrúar“ skipt út fyrir orðið
„guðleysis".
21 Islenska þýðingin á bls. 107-108 er hér töluvert umorðuð og m.a. orðunum „trúleysingjar“,
„vantrúar“ og „ágenga mælskulist" skipt út fyrir orðunum „guðleysingjar", „guðleysi" og
„árásagjarna mælsku".