Jökull - 01.12.1981, Page 116
Vorferð á Vatnajökul 30. maí til 5. júní 1981
Jöklarannsóknafélagift og Raunvísinda-
stofnun Háskólans stóðu saman að vorferð til
Grímsvatna um mánaðamótin maí—júní
1981. Lagt var af stað frá Reykjavík laugar-
dagsmorgun 30. maí og upp á jökul frá Jökul-
heimum næstu nótt og komið í Grimsvatna-
skálann um kl. 9 að morgni eftir auðvelda 5
klst. jöklaferð á snjóbílunum Jökli I og Jaka
Landsvirkjunar og tveimur vélsleðum.
Vetrarákoma á miðri Grímsvatnahellunni
var mæld að venju og reyndist hún vera 4.82
m hinn 1. júní og 2650 mm vatnsgildi. Vatns-
hæð undir Vatnshamri mældist 1443 m þann
sama dag. Er það hærra en mælst hefur frá því
mælingar hófust á vatnshæð i Grímsvötnum
árið 1955. Mælt var frá báðum Svíahnúkun-
um á stiklu á íshellunni nærri Nagg og þaðan
niður að vatnsborði. Jökull hafði skriðið yfir
Depil og engin varða fannst. Vatnshamarinn
var jDverhniptur og snjóflóð höfðu nýlega fall-
ið niður að vatnsfletinum.
Að frumkvæði Þorbjarnar Sigurgeirssonar
og Eggerts V. Briem var reist 4 m hátt 2. tonna
stálmastur 10 m suðvestan við skálann og ber
það uppi krossviðarkistu með 0.1 watta
stuttbylgjusendi í 1721.6 m hæð. Þaðan
náðust merki á Skyggni í Vatnaöldum, 88 km
leið. Þó mun nú í ráði að koma upp öflugri
sendi á Grímsfjalli og beina sendingum niður
á Skeiðarársand. A komandi árum mun hann
væntanlega senda til byggða niðurstöður
mælinga á jarðskjálftum, veðurathuganir og
vonandi einnig vatnsstöðu i Grímsvötnum.
Kannaðir voru möguleikar á að nýta jarð-
hita á Grimsfjalli til þess að framleiða raforku
með hitatvinni (thermocouple), sem gæti knúið
sendistöð og mælitæki. Sett var plaströr yfir
gufustrók á sprungu vestan við Hithól
(Saltarann), skammt frá opunum niður í ís-
hellana. Þar streymdu út um 5 kg/klst. af
87°C heitri gufu og nægir það til framleiðslu á
orku til þess að knýja senditækið og einhver
mælitæki. Rafstraumur verður væntanlega
leiddur með kapli um 300 m leið að sendinum.
Minni snjór var við skálann og Hithól en
nokkur þátttakenda hafði áður séð. I gufu-
augum á klöppinni við skálann og á Hithól
var hiti allt að 30°C, en tæplega 90°C rétt
austan við Hithól og hámarkshiti niðri í ís-
hellunum var 92°C (þ. e. nálægt suðumarki í
1700 m hæð yfir sjó). Á 1. m dýpi i borholu
undir fótum stálmastursins var 16°C. Ás-
mundur Jakobsson sá um jarðhitamæling-
arnar.
íshellarnir voru kannaðir og rissað upp kort
af þeim. Dýpst skriðu menn niður í 1660 m.
Sýni voru tekin af útfellingum á hitaskellum á
hellisgólfinu. Þorbjörn bauð þar upp á gufu-
bað undir plasttjaldi og varð hiti um 40°C.
Þorbergur Þorbergsson vann að landmæl-
ingum og fann m. a. að vestan við vestari
Svíahnúk og norðan Háubungu er jökullinn
um 100 m hærri en sýnt er á kortum, þ. e.
hann er í nærri 1700 m.
Skotist var á Öræfajökul að loknum störf-
um. Lagt var af stað um kl. 16 hinn 3. júní og
var færð þung í fyrstu, en stigið á Hvanna-
dalshnúk laust fyrir miðnætti og komið aftur á
Grímsfjall kl. 7 að morgni eftir 3 klst. ferð. Jaki
var búinn Loran-tæki og vann það vel.
Heimleiðis var haldið um kl. 22 hinn 5. júní
í góðri færð og komið að jökulrönd eftir 6 klst.
ferð. Veður var einstaklega gott alla ferðina,
hæg norðlæg átt.
Gunnar Guðmundsson, Hannes Haralds-
son og Björn Indriðason óku snjóbílunum.
Ragna Karlsdóttir og Sigrún Þorsteinsdóttir
sáu um matseld. Auk þeirra voru félagarnir
Jónas Elíasson, Ásbjörn Sveinsson og nýlið-
arnir Árni Árnason. Bárður Harðarson, Ólaf-
114 JÖKULL 31.ÁR