Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2013, Side 30
28
Asgrímur Angantýsson
breytingin frá S2 til S3 í aukasetningum með frumlagi í fyrsta sæti í
skandinavísku meginlandsmálunum tengist sagnbeygingu. Engu að síður
hafa ýmsar samtímalegar og sögulegar rannsóknir sýnt að sambandið
milli sagnbeygingar og orðaraðar getur ekki verið beint (sjá Sundquist
2002, Höskuld Þráinsson 2001, 2003 og 2010, Bentzen o.fl. 2007a,
Garbacz, Hákansson og Rosenkvist 2007, Wiklund o.fl. 2009).
Samkvæmt tilgátunni um ríkulegt beygingarsamræmi (e. Rich Agree-
ment Hypothesis), þ.e.a.s. þeirri gerð hennar sem gengur lengst, verður
sagnfærsla í tungumáli ef og aðeins ef viðkomandi mál býr yfir ríkulegri
sagnbeygingu (sjá umræðu um mismunandi útfærslur þessarar hug-
myndar hjá Höskuldi Þráinssyni 2010). Vikner (1997:103—104) færir
t.d. rök fyrir því að sagnfærsla úr sagnlið (SL) í BL komi aðeins fyrir í
málum ef hægt er að finna persónubeygingu í öllum tíðum (miðað við
raunverulegu persónubeygingu en ekki tjáningu tíðar með hjálparsögn-
um). Vandinn er hins vegar sá að sumar skandinavískar mállýskur, eink-
um Tromsp-mállýskan í Noregi (sjá t.d. Bentzen 2007, Wiklund o.fl.
2007) og sænska Kronoby-mállýskan í Finnlandi (sbr. t.d. Bentzen,
væntanlegt) leyfa S2 í ýmsum gerðum aukasetninga með frumlagi í
fyrsta sæti þrátt fýrir fátæklega sagnbeygingu (sjá umræðu hjá Bobaljik
2002, Höskuldi Þráinssyni 2003, 2007:60 og 2010:1078-1079). Gögn
úr fornsænsku og forndönsku sýna líka að þessi beygingaraðgreining
hvarf löngu fýrir breytinguna úr S2 í S3 í aukasetningum með frumlagi í
fýrsta sæti (sbr. Falk 1993). Sú útgáfa tilgátunnar um ríkulegt beyging-
arsamræmi sem gengur skemmra felur í sér að ef tungumál býr yfir ríku-
legri sagnbeygingu þá sé alltaf sagnfærsla í BL (Holmberg og Platzack
1995, Bobaljik og Höskuldur Þráinsson 1998, Bobaljik 2002, Höskuldur
Þráinsson 2003, 2010) en þeim möguleika er einnig haldið opnum að
sagnfærsla geti átt sér stað í tungumálum/mállýskum með fátæklega
sagnbeygingu.
Islenska býr yfir öllum þeim beygingarlegu og setningafræðilegu eigin-
leikum sem Bobaljik og Höskuldur Þráinsson (1998) nefna sem vísbend-
ingar um samsettan BL, þ.e.a.s. aðgreiningu tíðar og samræmis í þátíðar-
endingum veikra sagna, S2 í aukasetningum með frumlagi í fyrsta sæti og
möguleikanum á leppsetningum með áhrifssögnum. I skandinavísku megin-
landsmálunum er þessu öfugt farið: Engin aðgreining tíðar- og samræm-
isendinga, S3 er sjálfgefin röð í aukasetningum með frumlagi í fyrsta sæti
og leppsetningar með áhrifssögnum ganga ekki. Þetta er sýnt í (8) með
dæmum úr íslensku og dönsku (sjá nánar síðar í greininni):