Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2013, Page 120
Höskuldur Þráinsson o.fl.
118
Af samantektinni hér á undan (í (36)—(38)) má fá hugmynd um það hvert
stefnir í íslenskri setningagerð að því er þau atriði varðar sem hér hafa
verið á dagskrá. Þar eru í fyrsta lagi talin afbrigði sem virðast vera nýleg
vegna þess að það eru einkum yngstu aldurshóparnir sem telja þau eðli-
legt mál (sjá (36)). Þetta eru yfirleitt atriði sem menn höfðu hugboð um
áður þótt útbreiðsla þeirra hefði ekki verið rannsökuð ítarlega. Að því
leyti má segja að þarna komi fátt á óvart — fremur sé um að ræða staðfest-
ingu á því sem menn grunaði áður. I því sambandi er þó vert að ítreka að
viðtengingarháttur er ekki einfaldlega að hverfa, eins og stundum hefur
verið haldið fram, heldur er hann í sókn í sumum setningagerðum þótt
hann sé á undanhaldi annars staðar. I öðru lagi hefur verið fjallað um
afbrigði í íslenskri setningagerð sem hafa náð verulegri útbreiðslu í öllum
aldurshópum en virðast þó vera í sókn svona hægt og bítandi, ef svo má
segja. Þau sem talin eru í (37) eru væntanlega af þeirri gerð, t.d. þágu-
fallshneigðin (þágufallssýkin) margnefnda. Loks voru talin nokkur atriði
í (38) sem helst njóta hylli hjá eldri málnotendum. Það er þó ekki víst að
þar sé í öllum tilvikum um að ræða afbrigði sem eru að hverfa úr málinu.
Sumt af því sem þar er talið kann að einhverju leyti að vera bundið við
málsnið sem er eldra fólki tamara en því yngra, t.d. stílfærslan svonefnda.
Til að ná seinna markmiðinu höfum við reynt að skoða hvað niðurstöður
Tilbrigðaverkefnisins segja um útbreiðslu þeirra afbrigða sem hér voru á
dagskrá. Sum þeirra virðist fólk einkum tileinka sér á máltökuskeiði,
önnur virðast hafa breiðst út „eins og eldur í sinu“, þvert á kynslóðir. Þetta
endurspeglar trúlega að einhverju leyti mismunandi eðli þessara fýrir-
bæra. Þar sem í raun og veru er um „málfræðilega nýjung“ að ræða er lík-
legt að fyrirbærið breiðist út með nýjum kynslóðum sem tileinka sér það
á máltökuskeiði. Nýja þolmyndin er líklega besta dæmið um það. Þær
nýjungar sem fela í sér útvíkkun eða jákvæðari afstöðu til einhvers sem
þegar er til í málinu í einhverju formi geta frekar breiðst út þvert á
kynslóðir. Útvíkkun framvinduhorfs, og þó einkum handboltahorfið svo-
nefnda, virðist gott dæmi um þetta.
Nú er auðvitað ekki víst að allir séu sammála um það að nýja þol-
myndin sé „djúp“ málbreyting en handboltahorfið sé dæmi um „yfir-
borðslega útbreiðslu“. Sumir vilja kannski líta svo á að öll þau fyrirbæri
sem hér hafa verið rædd séu í raun yfirborðsleg í eðli sínu og varði ekki
þann djúpa kjarna sem málkunnáttan byggist á, t.d. það sem stundum er
kallað core syntax. Slíkir efasemdarmenn þurfa þá að koma með einhverja
skýringu á því hvers vegna sá skýri munur kemur fram sem hér hefur
verið bent á.