Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2013, Page 196
194
Haukur Þorgeirsson
Tónkvæði
I flestum norskum og sænskum mállýskum er gerður greinarmunur á tvenns konar
tónkvæði eða orðtónum, fyrra og seinna tónkvæði. I dönsku er samsvarandi munur
á orðum með og án raddglufuþrengingar (st0d). Yfirleitt er talið að danska radd-
glufuþrengingin hafi þróast úr aðgreinandi tónkvæði. I grundvallaratriðum dreifast
tónkvæði og raddglufuþrenging á hátt sem er fyrirsegjanlegur út frá atkvæðafjölda
í norrænu. Tvíkvæð orð í norrænu hafa afkomendur með seinna tónkvæði í sænsku
og norsku og án raddglufuþrengingar í dönsku. Til dæmis má taka orðið tunga, sem
er tvíkvætt í norrænu og afkomendum hennar. Orðmyndin tunga hefúr seinna
tónkvæði í sænsku og norsku og er án raddglufuþrengingar í dönsku.
Ymis orð sem voru einkvæð í norrænu hafa eignast tvíkvæða afkomendur í
yngri málunum með tilkomu stoðhljóðs. Þessi orð hafa fyrra tónkvæði í sænsku
og norsku og raddglufuþrengingu í dönsku. Til dæmis má taka orðið fingur, sem
í norrænu er einkvætt, fingr. En í öllum norrænum málum sem nú eru töluð er
þetta orð tvíkvætt. A dönsku hefur finger raddglufuþrengingu og á norsku og
sænsku hefur þetta orð fyrra tónkvæði.
Þegar stoðhljóðið kom upp í norsku á 13. öld hefur orðið fingur sem sagt haft
fyrra tónkvæði, það varð tvíkvætt en hélt tónafari einkvæðra orða. A þessum tíma
voru norska og íslenska náskyld mál og raunar má segja að íslenska hafi enn verið
norsk mállýska fram á síðari hluta 14. aldar. Það eru jafnvel til handrit sem
fræðimenn geta ekki ákvarðað hvort Islendingur eða Norðmaður hefur skrifað.
Miðað við þetta er fyrirfram alls ekki ólíklegt að íslenska hafi á þessum tíma haft
tónkvæði með sama hætti og norska. Tónkvæði er greinilega fornt í norrænum
málum. Það sést meðal annars af sambandi þess við viðskeytta greininn eins og
nú verður lýst.
Orð sem voru tvíkvæð í norrænu hafa afkomendur með fyrra tónkvæði eða
raddglufuþrengingu ef seinna atkvæðið var ákveðinn greinir. Til dæmis má taka
dönsku orðmyndina hunden ‘hundurinn’, sem hefur raddglufuþrengingu. Það
sem skiptir máli er þá greinilega málstigið áður en viðskeytti greinirinn bættist
við. Viðskeyttur greinir er venjulegur hluti af norrænum málum í elstu rituðum
heimildum og hefur ef til vill orðið það mun fyrr. Mér finnst því fyrirfram senni-
legast að forníslenska hafi haft svipuð tónkvæðiseinkenni og norska.
Sem betur fer er þó ekki getgátum einum um þetta að sæta. I Þriðju málfræði-
ritgerðinni, sem Ólafur hvítaskáld ritaði á seinni hluta 13. aldar, er fjallað um ýmis
málfræðileg atriði sem varða brag og stíl. Þar er meðal annars fjallað um tón-
kvæði, eða mismunandi hljóðsgrein eins og fyrirbærið er þar kallað. Umfjöllunin
er því miður nokkuð grautarleg og sýnilegt að Ólafi hefur ekki almennilega tek-
ist að slíta sig frá grísk-latnesku fræðiritunum sem hann hafði að undirstöðu. En
það sem þrátt fyrir allt bendir sterklega til þess að Ólafur hafi verið að lýsa raun-
verulegu norrænu tónkvæði er það sem hann segir um vísuhelming eftir skáldið
Skraut-Odd (sjá Finn Jónsson (útg.) 1927:45—46):