Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2013, Page 200
198
Gunnar Ólafur Hansson
sá kafli stutta og hnitmiðaða yfirskrift: „Stoðhljóðið“. Þar að auki er það aðallega
þessi hluti verksins sem kallast á við það sem nefna mætti þriðja og síðasta hluta
verksins, en það er það ríkulega textafræðilega efni sem fylgir með í viðaukum við
hina eiginlegu ritgerð. Þar er að sjálfsögðu fyrirferðarmest stafrétt útgáfa Ormars
rímna (frá 15. öld), ásamt með lesbrigðum úr ólíkum handritum, auk texta rímn-
anna á samræmdri stafsetningu.
Eins og einatt er raunin þegar söguleg hljóðkerfisfræði er annars vegar þá er
Haukur hér að kljást við erfitt verkefni sem útheimtir djúpstæða þekkingu á mál-
heimildum þeirra tímaskeiða sem um ræðir, auk kunnáttu í handrita- og texta-
fræði, svo ekki sé talað um hinn fræðilega bakgrunn úr almennum málvísindum
og þá helst hljóðkerfisfræðikenningar þær sem við sögu koma í skrifum fyrri
fræðimanna um samspil hljóðkerfis og bragkerfis. Þegar á þetta er litið verður
ekki annað sagt en að hér hafi Haukur unnið ákaflega vandað verk í alla staði og
óska ég honum til hamingju með ritgerðina.
Engu að síður er það nú svo að hlutverk andmælanda við doktorsvörn felst að
miklu leyti í því að velta við steinum þar sem kunna að leynast óútkljáð og ef til
vill óvænt vandamál og gerast jafnvel á stundum málsvari andskotans til að gera
doktorsefninu kleift að standa fyrir sínu, verja rannsóknarritverk sitt eins og ráð
er fyrir gert. Hér ætla ég að leitast við að velta upp nokkrum slíkum atriðum, þar
sem ég er ýmist ósammála Hauki hvað varðar niðurstöður, forsendur eða aðferðir
eða þá finnst hann hafa skautað fullléttilega yfir mikilvæg sjónarmið eða mótrök
í umfjöllun sinni. í leiðinni mun ég bera upp fáeinar spurningar sem Haukur
getur síðan freistað þess að svara í viðbrögðum sínum við þessari framsögu minni.
2. Gildi og hlutverk Ormars rímna í verkinu
Ég ætla reyndar að byrja strax á slíkri spurningu, en hún er einföld og snýr að því
hvaða hlutverki útgáfan á Ormars rímum Fraðmarssonar (og tilheyrandi texta-
fræðileg vinna henni tengd) gegnir í þessari ritgerð og hvert gildi þeirrar heim-
ildar er fyrir rannsóknarverkefnið sem slíkt. Þetta þykir mér ekki koma nógu
skýrt fram, sérstaklega ekki í íslenska megintextanum, þótt farið sé örfáum orð-
um um það í enska útdrættinum í lokin.
Spurning 1: Hvers vegna var talið nauðsynlegt að fella inn í verkið áður óút-
gefinn rímnabálk? Ritgerðin byggir að öðru leyti á ríkulegu safni útgefins
kveðskapar frá mörgum tímum, meðal annars því tímaskeiði sem Ormars
rímur eru frá. Hvað er sérstakt við texta Ormars rímna sem kallaði á þessa
ákvörðun?
3. Jafngildi, hljóðfræðileg líkindi og hljóðkerfisgerð
Þegar grundvöllur bragreglna um stuðlun og rím er kannaður er lykilatriðið jafn-
gildi. Hvenær má leggja tvö hljóð, hljóðaraðir, atkvæðahluta o.s.frv. að jöfnu og