Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2013, Page 208
206
Gunnar Ólafur Hansson
Ráðgátan sem lagt er upp með í þessum hluta ritgerðarinnar er hverju það
megi sæta að skáldum takist að halda fornum einkvæðum og tvíkvæðum mynd-
um skilmerkilega aðgreindum löngu eftir tilkomu stoðhljóðsinnskots og geti
farið með þessa tvo flokka á ólíka vegu í endarími. Le)rfilegt sé að beita myndum
eins og mögur eða sonur í enda stýfðs vísuorðs en ekki myndum á borð við sögur
eða konur, og öfugt í enda óstýfðs vísuorðs. Þarna virðist um sundurgreinandi
hefðarreglu að ræða og telur Haukur að hún styðjist við tónkvæðismun sem
endurspegli upprunalegan atkvæðafjölda, rétt eins og þekkist úr öðrum norræn-
um málum. Sá munur geri hefðinni kleift að lifa áfram um sinn, uns tónkvæðis-
aðgreiningin hverfur úr málinu, sem ályktað er að gerist um siðaskipti.
Vitnisburðurinn um póstlexíkölsk innskotsvíxl hjá gömlu einkvæðu orðun-
um varpar hins vegar öðru ljósi á vandann. Málnotendur hlutu að hafa vitneskju
um það að sumar orðmyndir sem enduðu á -ur hefðu slík víxl — ættu sér m.ö.o.
einkvæðar hliðarmyndir — en aðrar orðmyndir sem enduðu á -ur hefðu engin slík
víxl heldur væru ávallt tvíkvæðar. Þar með er komið að síðustu og að mínu mati
áleitnustu spurningunni sem ég varpa til doktorsefnisins:
Spurning 6: Er hugsanlegt að tilvist innskotsvíxla og einkvæðra hliðar-
mynda hjá sumum orðum (góðr ~ góður, telr ~ telur) en ekki hjá öðrum
(tófur, sögur) hafi ein og sér verið nægur grundvöllur fyrir því að halda sundur-
greinandi rímhefð gangandi eins lengi og raun ber vitni? Er slík skýring betri
eða verri en tónkvæðisskýringin og þá af hverju?
Til áréttingar vil ég benda á að skýring í þessa veru veltur engan veginn á því
hvernig upprunalega einkvæðar myndir eins og góðr voru bornar fram í lok
segðar eða í lok vísuorðs. I breytingum sem voru gerðar á kafla 8.11.7 í kjölfar
umsagnar minnar um fyrri drög ritgerðarinnar, þar sem ég velti upp þessu vanda-
máli, telur Haukur ósennilegt að slíkar orðmyndir hafi haldist einkvæðar í lok
vísuorða. Eg er sammála honum að þessu leyti, en mikilvægt er að árétta að sú
skýring sem hér er stungið upp á gengur fullt eins vel upp ef framburðurinn var
þar orðinn tvíkvæður. Aðalatriðið er að tilvist innskotsvíxla, og vitneskjan um að
orðmyndir með -ur falli í tvo flokka með tilliti til þeirra víxla, getur hafa verið
næg undirstaða undir langvarandi hefðarreglu. I því sambandi sýnist mér heldur
ekki skipta máli að innskot virðist stundum verða á undan viðskeyttum greini í
15. aldar ritum, þó svo að þar fari sérhljóð á eftir r-inu (sbr. <lydure«>), en ég
hlakka til að heyra hvað Haukur hefur um þetta mál að segja.
7. Lokaorð
Að lokum vil ég árétta hversu vel unnið verk doktorsefnið hefur hér lagt fram.
Mikil og vönduð vinna liggur að baki ritgerðinni og Haukur sýnir djúpstæða
þekkingu jafnt á viðfangsefninu sem slíku og viðeigandi aðferðafræði. Sjálfum