Bændablaðið - 12.02.2015, Síða 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. febrúar 2015
Með ferðaþjónustu, fjárbú og áætlunarferðir á Austfjörðum:
Í mörg horn að líta hjá ábúendum
í Hlíðartúni í Njarðvík
„Dagarnir eru oft ansi langir, því
er ekki að neita, en gengur samt
ágætlega upp því við erum saman
í þessu öllu,“ segir Margrét B.
Hjarðar í Hlíðartúni í Njarðvík,
sem er í um 10 kílómetra fjarlægð
frá Bakkagerði i Borgarfirði eystri.
Margrét og eiginmaður hennar,
Jakob Sigurðsson, eiga 4 börn,
Guðfinnu, Önnu Margréti, Sigurð
og Bóas. Þau reka sauðfjárbú, með
rúmlega 400 kindur, og stunda að
auki nautaeldi, eru með 40 naut. Þá
halda þau hesta, svín og hænur til að
auka fjölbreytileikann í búskapnum.
Þau reka ferðaþjónustu að Borg
sem einnig er staðsett í Njarðvík
og hafa leyfi til að hýsa 16 manns í
tveimur íbúðum. Einhverjum kann
að þykja ofantalið ærinn starfi, en
þau Margrét og Jakob eru einnig með
áætlunarferðir milli Borgarfjarðar
eystri og Egilsstaða alla virka daga
allt árið um kring.
Leist ekkert á blikuna fyrst
Jakob er fæddur og uppalinn
á Borg í Njarðvík, en Margrét
er Jökuldælingur, ólst upp á
Hjarðargrund og kennir sig við
æskuheimili sitt.
„Ég kom fyrst hingað í
Njarðvíkina með Jakobi fyrir þrjátíu
árum á vörubíl, en á þeim árum vann
hann mikið uppi á Héraði á vörubíl
sínum. Þetta var árið 1985 og satt best
að segja leist mér ekki neitt á blikuna
þá,“ segir hún. „Ég kom seinnipart
sumars og Vatnsskarðið var ekki
sérlega árennilegt, svartaþoka og
ekkert að sjá nema niðamyrkur, þetta
var heldur skuggalegt.“
En Margrét var fljót að jafna
sig þótt fyrsta upplifun af staðnum
hafi skotið henni skelk í bringu.
Og Vatnsskarðið, sem fara þarf
yfir ætli menn sér að komast upp
á Hérað, hræðist hún ekki lengur.
Er þar öllum hnútum kunnug eftir
æði margar ferðir þar yfir í alls kyns
veðrum.
„Þetta er orðið svo ágætt núna,
fyrst þegar ég flutti í Njarðvíkina
voru tveir mokstursdagar í viku, þeim
var svo fjölgað í fjóra en nú á liðnum
vetri hafa þeir verið sex, þannig að
það má segja að maður komist allra
sinna ferða. Þetta er mikill munur og
skiptir okkur verulegu máli,“ segir
hún.
Dreif sig í meiraprófið til að
hlaupa í skarðið
Margrét og Jakob hafa séð um
áætlunarferðir á leiðinni frá
Borgarfirði eystri til Egilsstaða frá
árinu 1996.
„Við höfum sérleyfi á þessari
leið, við flytjum ýmsar vörur, erum
landpóstar, höfum um það bil 50
viðkomur hér í Borgarfjarðarhreppi,
byrjum þó dreifinguna á Unaósi sem
er fyrsti bær hér ofan við fjall. Við
erum alltaf á ferðinni og þetta hefur
undið upp á sig og smám saman
orðið umfangsmeira. Við byrjuðum
með 7 manna Patrol-jeppa í þessum
flutningum okkar, en eftir að meira
varð umleikis keyptum við öflugri
bíla, erum núna á 16 manna Möntru
sem er breyttur M.B. Sprinter,“ segir
Jakob.
Margrét gerði sér svo lítið fyrir
og vatt sér í meiraprófið til að hlaupa
undir bagga með Jakobi í akstrinum
og nú hin síðari ár er hún allt eins
mikið á ferðinni og hann. „Ég sá
að það þýddi ekki annað en taka
meiraprófið svo ég gæti hlaupið í
skarðið og tekið eina og eina ferð.
Þetta fyrirkomulag hentar vel,
núorðið skiptumst við á að aka,“
segir Margrét.
Setur mörkin við fatakaupin
Oft kemur fyrir að sveitungar biðji
þau Margréti og Jakob að grípa eitt og
annað með sér frá Egilsstöðum. „Það
er nú eitt og annað sem maður hefur
tekið með og fært sveitungunum,
þetta eru reddingar af ýmsu tagi, alls
kyns viðvik. Það er ekkert mál að
gera fólki greiða af og til, það vantar
kannski blómvönd fyrir afmæli eða
rauðvínsflösku, eða bara hvað sem er
og fólk veit að við erum á ferðinni
og eigum hægt um vik að taka með,“
segir Jakob. Hann bætir við að það
séu nánast engin takmörk fyrir því
hvað hann sé tilbúinn að gera fyrir
sína ágætu sveitunga.
„Það er eiginlega bara eitt sem ég
treysti mér ekki í og það er að velja
fatnað á konurnar hér í sveitinni. Þar
dreg ég mörkin,“ segir hann og bætir
við að það eigi við um nærfatnað, en
best fari á að nefna það nú ekki neitt
í viðtalinu.
Samfélagsþjónusta
Margrét og Jakob segja að líta megi
á þessi aukaviðvik sem eins konar
samfélagsþjónustu sem þau inni af
hendi með glöðu geði.
„Þetta byrjaði smátt og nánast
ómeðvitað, en hefur dálítið undið
upp á sig. Það er auðvitað misjafnt
eftir dögum hversu mörgum erindum
þarf að sinna, en við höfum gaman af
þessu,“ segir Margrét og bætir við að
sér þyki gaman að gera fólki greiða
og eins hafi hún gaman af því að aka
bíl, svo starfið henti sér prýðilega.
„Mér leiðist aldrei,“ segir hún. Það
sé frekar að Jakob sjái ekki alltaf
björtu hliðarnar á akstrinum, enda
hafi hann um langt árabil átt vörubíl
og stundað verktöku.
„Ég fæ stundum alveg nóg af
akstri,“ segir hann.
Allt tilbúið þegar „gönguæðið“
rann á menn
Af og til sjá þau um að flytja farþega
milli staða, utan fastrar áætlunar,
m.a. að sækja hópa úr millilandaflugi
til Akureyrar, göngugarpa sem koma
austur og dvelja í viku til að ganga á
Margrét B. Hjarðar, Jakob Sigurðsson og sonur þeirra, Bóas, standa framan við húsið að Borg sem reist var árið 1992. Þangað leggja gjarnan leið sína hópar sem stunda gönguferðir í nágrenninu,
Mynd / MÞÞ
sonur þeirra, Bóas. Mynd / MÞÞ