Bændablaðið - 12.02.2015, Page 35
35Bændablaðið | Fimmtudagur 12. febrúar 2015
Fátt er mikilvægara fyrir
hagkvæmni í mjólkurframleiðslu
en að mögulegt sé að halda uppi
góðri frjósemi hjá kúnum. Samhliða
gífurlegri afurðaaukningu hjá
kúnum á síðustu áratugum varð
það vaxandi áhyggjuefni þeirra
sem stýrðu ræktunarstarfi víða
um lönd að frjósemi kúnna virtist
samtímis hraka.
Langt fram eftir síðustu öld þá
var lítt sem ekkert hugað að frjósemi
kúnna í ræktunarstarfinu. Sagt var
að allar rannsóknir sýndu sáralítið
arfgengi fyrir flesta eiginleika
sem mældu frjósemi og því væri
lítils að vænta af slíku starfi. Fyrri
staðhæfingin var rétt en ekki hin. Það
var fyrst um 1970 að Norðmenn tóku
frjósemi með í sitt ræktunarmarkmið
og hin Norðurlöndin nema Ísland
skömmu síðar. Það er samt fyrst
um 1990 sem frjósemin kemur inn
í ræktunarmarkmið hjá mörgum
stærstu mjólkurframleiðslulöndum,
þó með ákaflega mismunandi
áherslum.
Frjósemi er mæld á mjög
breytilegan hátt milli landa og verður
því ekki sami eiginleiki í raun sem
verið er að fást við á öllum stöðum.
Hinir mismunandi mælikvarðar á
frjósemi hafa sína kosti og galla sem
ekki verða ræddir hér. Langalgengasta
mæling er samt bil milli burða
hjá kúnum og sú mæling sem er
aðgengileg í langflestum löndum.
Ástæða er að vísu að benda á að
í löndum þar sem mest er byggt á
beit og mjólkurframleiðslan er mjög
árstíðabundin, þar eru Nýja-Sjáland
og Írland gleggstu dæmin, hefur ætíð
átt sér stað ákveðið val fyrir frjósemi.
Breytingar í frjósemi
Í grein frá heimsráðstefnunni um
búfjárkynbætur í Kanada á síðasta ári
er greint frá ákaflega víðtækri könnun
sem hópur erfðafræðinga úr löndum
gamla breska heimsveldisins höfðu
unnið um þróun í þessum efnum á
síðustu þrem áratugum. Hér á eftir
ætla ég að endursegja örfá atriði
úr henni og mögulega skjóta að
einhverjum tengingum við okkar
aðstæður.
Könnun þessi var bundin við
svartskjöldóttar kýr (Friesian) og náði
til 16 stórra framleiðslulanda. Mjög
víðtæk gagnaöflun átti sér stað fyrir
um tuttugu ára tímabil.
Á mynd 1 er sýnd þróun síðustu
ára í bili milli burða hjá kúnum á
„heimsvísu“ eins og þeir kalla þessar
niðurstöður sínar og fellur þróunin
gríðarlega vel að boglínusambandi
sem þeir reikna fyrir hana.
Samkvæmt myndinni er greinilegt
að þróun frjóseminnar hefur verið
neikvæð en samt virðist sem hún sé
að draga úr neikvæðri þróun síðustu
árin. Þetta sést enn greinilegar í töflu
þar sem þeir hafa tvískipt tímabilinu
og á fyrra bilinu, 1990–1999, er alls
staðar neikvæð þróun og fyrir heildina
nemur lenging á bili á milli burða
1,25 dögum á ári að jafnaði en eftir
aldamótin er farið að gæta jákvæðrar
þróunar í sumum löndum. Í töflunni
sést ákaflega greinilega að eftir því
sem meðalafurðir eru hærri eftir
löndum þá er bil á milli burða líka
verulega lengra. Eina umtalsverða
frávikið frá því er Finnland þar sem
ástandið er miklu betra en þar hefur
frjósemi verið með í ræktunarstarfinu
mun lengur en í öðrum löndun í
könnuninni. Minna má á að flestar
mælingar hér á landi sýna bil milli
burða sem er 2–3 vikum skemmra en
meðaltölin sem koma fram á mynd 1.
Á mynd 2 hafa þeir sett saman
árlegar breytingar í afurðum á móti
samsvarandi breytingum í frjósemi á
árunum frá aldamótum. Ástandið er
ákaflega breytilegt á milli landa en
niðurstaðan í heild neikvæð um þetta
samband. Sérstaklega er áberandi
neikvæð þróun í Bretlandi en þar
hefur til þessa verið hvað minnst
áhersla lögð á frjósemi kúnna í
ræktunarstarfinu af flestum löndum.
Þeir gera einnig tilraun til að
meta breytingarnar í stofninum
(erfðabreytingar) og skipta þá
tímabilinu í tvennt. Þeir miða við
skilgreiningu viðkomandi lands á
frjósemi, en eins og áður sagði er hún
breytileg. Þeir finna samt neikvæða
erfðabreytingu í frjósemi hjá kúnum
í öllum löndunum á tímabilinu
1990–1999 en telja sig finna að eftir
aldamótin sé stofninn í fimm löndum
kominn yfir botninn þó að ekki sé enn
mögulegt að tala um betri frjósemi
og eru þetta Ástralía, Bandaríkin,
Finnland, Írland og Nýja-Sjáland.
Erfðasamband
Allt það sem þegar er sagt lætur okkur
álykta að á milli mjólkurafkasta og
frjósemi sé neikvætt erfðasamband.
Um það efast víst enginn lengur, en
hversu sterkt er það? Samantekt á
birtum útreiknum um þetta samband
við bil milli burða (höfundar segja
að fjöldi slíkra rannsókna fyrir aðra
frjósemismælikvarða sé því miður
ekki mögulegur vegna þess hve
fáar rannsóknir séu fyrir hendi um
alla aðra frjósemiseiginleika, en
vísbendingar þær sömu) sýnir þetta
samband um 0,50. Þetta þýðir það að
til að halda í horfinu með frjósemi
verður að leggja um það bil helming
af þeim þunga á frjósemina sem
lagður er á afurðir í nautavalinu.
Höfundar greinarinnar tóku hins
vegar tölurnar úr alheimsrannsóknum
um erfðafylgni og stilltu niðurstöðum
erfðafylgninnar á móti meðalafurðum
kúnna í viðkomandi rannsókn.
Niðurstöðurnar má sjá á mynd 3.
Þær virðast ekki koma höfundunum
alveg á óvart nema helst hvað þetta
samband virðist ákaflega sterkt.
Þeir segja að þarna hljóti að vera
margvíslegt samspil umhverfis og
erfða, þ.e. þú ert í raun ekki að mæla
sama eiginleika við mismunandi
framleiðsluaðstæður. Samkeppni
um fóðurorku á milli mjólkur og
frjósemi er vel þekkt hjá hámjólka
kúm. Þá koma einhver áhrif sem
áður eru nefnd frá beitarbúskap í
mjólkurframleiðslu þarna einnig
við sögu. Þessar niðurstöður segja
okkur það aftur á móti að eftir því
sem meðalafurðir eru meiri þá verður
að leggja að sama skapi meiri áherslu
á frjósemi kúnna í ræktunarstarfinu
til að henni verði haldið í horfinu í
stofninum. Hér á landi þekkjum við
þetta samband ekki af fullri vissu.
Ég efast ekki um að það sé neikvætt
en mundi samt ekki ætla það eins
sterkt og víða sést þó að full ástæða
sé til að gæta að því með auknum
afurðum. Í þessu sambandi má benda
á að við notuðumst flestum lengur
við fremur frumstæðar mælingar á
afkastagetu kúnna meðan þar voru
notaðar ársafurðir, en með því var
áreiðanlega jafnhliða einhver áhersla
lögð á frjósemi kúnna.
Interbull, heimsstofnun fyrir
alþjóðlegt kynbótamat fyrir nautgripi,
hefur frá árinu 2007 unnið slíkt mat
fyrir frjósemiseiginleika. Vegna
mismunandi skilgreininga þá er
hins vegar samspil milli landa
miklu meira en fyrir venjulega
framleiðslueiginleika og upplýsingar
frá öðrum löndum því þýðingarminni
fyrir frjósemiseiginleikana en flesta
aðra eiginleika.
Skoðun á erfðamenginu
Á allra síðustu árum hafa
sameindafræðilegar rannsóknir til
skoðunar á erfðamengi nautgripa
sem annarra dýra stóraukist og
allur þungi rannsókna er þar í
dag. Þessar rannsóknir hafa sýnt
að „staðsetningar“ (gen) eða
erfðabreytileikar sem finna má í
erfðamenginu og hafa áhrif á frjósemi
skipta hundruðum. Þær eru eins og
fyrir aðra eiginleika breytilegar eftir
kynjum og ekki hefur tekist að finna
nein merki sem hafa afgerandi áhrif
á frjósemi kúnna. Engir stórvirkir
erfðavísar eins og eru vel þekktir
fyrir frjósemi hjá sauðfé.
Fyr i r ö r fáum árum
veitti hins vegar bandaríski
nautgripakynbótafræðingurinn
VanRaden og samstarfsfólk hans
því athygli að í hinni hefðbundnu
raðgreiningu á erfðamengi
nautgripa með rúmlega 50 þúsund
staðsetningum var að finna talsvert af
samsætum sem komu fyrir í talsverðu
mæli í erfðamenginu en aldrei samt í
arfhreinum einstaklingum. Þetta var
nákvæmlega það sama og sjá mátti
fyrir þá tiltölulega fáu deyðandi
erfðavísa sem þekktir voru í þessum
kynjum. Hann ályktaði því sem svo
að þarna væru staðsetningar þar sem
væri að finna deyðandi erfðavísa.
Núna virðist sem feikilega mikið sé
lagt í vinnu víða um heim að leita
uppi slíka erfðavísa því að sjálfsögðu
er þessi kenning rétt. Nýlega eru
t.d. birtar víðtækar rannsóknir frá
Norðurlöndunum á þessu sviði.
Yfirleitt eru þessi gen með lága tíðni
og samsvarandi erfiðleikum bundið
að finna þau, en samt eru dæmi um
að tíðni einstakra slíkra gena í sumum
stofnum sé á bilinu 0,2–0,3 sem
hljómar ákaflega mikið fyrir svona
eiginleika. Það sem gerist þegar að
æxlað er saman tveim einstaklingum
með genið er að það myndist
dauðvona fósturvísir og oftast mælist
þetta aðeins sem lakari frjósemi hjá
kúnni, kýrin missir fóstur snemma á
meðgöngu og gengur upp. Það virðist
í dag að leitun að slíkum erfðavísum
eigi talsvert upp á pallborðið hjá
rannsóknarfólki bæði í nautgripa-
og sauðfjárrækt og jafnvel öðrum
dýrategundum. Í Bandaríkjunum
munu naut sem bera þessi gölluðu
gen vera merkt og það síðan notað
í pörunarforritum en gripirnir ekki
einangraðir úr ræktuninni. VanRaden
sýndi fram á að yfirleitt er hér um
gamlar stökkbreytingar og þær því
talsvert dreifðar í stofninum. Velta má
fyrir sér hvort mögulega birtist okkur
í þessu sem lýst er hér að framan
eitt form á temprum eiginleika frá
náttúrunnar hendi.
Í þessu sambandi má til gamans
rifja upp að snemma á sjötta ártug
síðustu aldar uppgötvuðu sænskir
vísindamenn svonefnda 1/29
yfirfærslu ( Robertson translokasjon)
hjá nautgripum og henni gat fylgt
talsverð skerðing í frjósemi kúnna.
Þarna er um að ræða tilfærslur í
litningunum sjálfum sem greina
mátti með smásjá. Þessi galli
fannst að lokum í mörgum tugum
nautgripakynja víða um heim.
Sæðinganaut voru rannsökuð og öll
sem reyndust hafa þessa breytingu
tekin úr notkun og þessum galla því
að mestu eytt. Þess má einnig geta
að í lok áttunda áratugarins þá þótti
talsvert áberandi slök frjósemi hjá
dætrum nokkurra toppnauta hér á
landi og voru því sýni send til að
rannsaka hvort þennan galla kynni
að vera að finna hjá íslenskum
nautgripum. Engar vísbendingar
komu fram þar um.
Blendingsrækt
Í lok greinarinnar benda höfundar
á að ein leið sem er opin en nánast
ekki notuð í mjólkurframleiðslu
er blendingsrækt. Með henni
eyðast flestir neikvæðir þættir sem
fylgja skyldleikarækt og víkjandi
erfðavísum. Í mjólkurframleiðslu
hefur þessi leið hins vegar hvergi náð
fótfestu nema á Nýja-Sjálandi. Samt er
hún í flestum löndum á þröskuldinum
hjá mjólkurframleiðendum. Að vísu
ekki hérlendis.
Örfá orð um þróun í frjósemi hjá mjólkurkúm
Jón Viðar Jónmundsson
Jón V. Jónmundsson/Bondi
Mynd 1. Breytingar í tímalengd milli burða síðustu árin hjá svartskjöldóttum kúm.
Mynd 2. Afurðaaukning í einstökum löndum á móti bili milli burða á tímabilinu
2000–2007 fyrir kýrnar sem fjallað er um í greininni.
viðkomandi rannsókn.
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
Rannsókna- eða
tilraunaverkefni í
garðyrkju
Framleiðnisjóður landbúnaðarins auglýsir eftir umsóknum
um framlög til rannsókna- eða tilraunaverkefna vegna ársins 2015
samkvæmt 5. gr. í samningi um starfsskilyrði framleiðenda
garðyrkjuafurða, frá 12. mars 2002, með síðari breytingum.
Framleiðnisjóður annast vörslu umræddra fjármuna, auglýsir eftir
umsóknum og sér um greiðslu framlaga. Styrkir vegna rannsókna/
tilrauna geta numið allt að 50% heildarkostnaði við rannsóknina/
tilraunina. Einungis eru veitt framlög til rannsókna eða tilrauna
sem nýtast íslenskri grænmetisframleiðslu.
Nánari reglur um kröfur til styrkumsókna og verklagsreglur um
úthlutun og afgreiðslumáta umsóknanna má finna á heimasíðu
Framleiðnisjóðs landbúnaðarins fl@fl.is
Þar eru einnig umsóknareyðublöð til útfyllingar.
Frekari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri Framleiðnisjóðs
landbúnaðarins á netfanginu thorhildur@fl.is
Umsóknarfrestur er til 1. mars 2015
Umsóknum skal skilað til
Framleiðnisjóðs landbúnaðarins,
Hvanneyri 311 Borgarnes, merktum:
rannsóknir í garðyrkju.