Morgunblaðið - 12.08.2015, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 12.08.2015, Blaðsíða 19
19 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 12. ÁGÚST 2015 Næði Misjafnt er hversu fólk er kröfuhart þegar það þarf næði, til dæmis til að lesa. Þessi unga manneskja tyllti sér niður á Laugaveginum þar sem mikill erill er og lét ekkert trufla sig. Styrmir Kári Ekki skal dregið í efa að tilgangur Evr- ópusambandsins og Bandaríkjanna með viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi sé göfugur. Innlimun Krímskaga er brot á alþjóðlegum lögum og stöðugt ofbeldi Rúss- lands gagnvart Úkra- ínu einnig. Íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að taka höndum sam- an við helstu vinaþjóðir til að sýna í verki andúð sína á stefnu og fram- komu rússneskra stjórnvalda gagn- vart frjálsri nágrannaþjóð. Vandinn er hins vegar sá að við- skiptaþvinganir gagnvart Rússlandi hafa a.m.k. fram til þessa ekki skil- að þeim árangri sem að var stefnt. Lítil sannfæring er að baki aðgerð- unum. Stórþjóðirnar hafa komið málum þannig fyrir að þeirra eigin efnahagslegi skaði verði lágmark- aður. Fyrir bandarískt efnahagslíf skipta þvinganirnar litlu. Þjóðverjar halda áfram að eiga mikilvæg við- skipti við Rússland til að tryggja gas og olíu og Frakkar halda sínu striki. Það eru því fremur smáþjóðirnar í Evrópu sem verða að axla byrð- arnar, þar á meðal við Íslendingar. Þegar færð eru rök fyrir því að Ís- land hafi skyldum að gegna og eigi að fylgja bandalagsþjóðum í aðgerð- um gagnvart Rússlandi er vert að hafa þessa staðreynd í huga. Bandaríkin og áhrifamestu þjóðir Evrópu hönnuðu við- skiptaþvinganirnar út frá eigin hagsmunum en ekki hagsmunum Íslands, Noregs eða annarra þjóða. Ekki verður séð að Ísland hafi átt nokkurn þátt í að móta eða haft minnstu áhrif á stefn- una sem rekin hefur verið gagnvart Rúss- landi. Líklega skiptir áhrifaleysi Íslendinga (eða ósjálfstæði við mörkun utanríkisstefnu) ekki mestu að þessu sinni. Miklu mikilvægari er spurningin: Munu viðskipta- þvinganir skila tilætluðum árangri? Ef litið er til reynslu Vesturlanda er svarið nokkuð einfalt: Það eru meiri líkur en minni á því að við- skiptaþvinganir skili ekki tilætl- uðum árangri og skaði fremur þá sem síst skyldi. Hvað þarf? Þegar ríki ákveður að beita annað viðskiptaþvingunum verður a.m.k. tvennt að vera skýrt: Annars vegar af hverju þving- unum er beitt og hins vegar hvað stjórnvöld viðkomandi ríkis þurfa að gera til að aðgerðum verði hætt og viðskipti færð í eðlilegt horf. Mér er ekki ljóst hvaða skilyrði íslensk stjórnvöld, utanrík- isráðherra og utanríkismálanefnd, vilja að rússnesk stjórnvöld uppfylli til að látið verði af viðskiptaþving- unum. Ef skilyrðið er að horfið verði frá innlimun Krímskaga virðist augljóst að viðskiptaþvinganir verða við lýði um ókomna tíð. Það er nauðsynlegt að utanríkis- ráðherra upplýsi hvaða skilyrði hann hefur sett og hvernig hann hefur kynnt rússneskum stjórnvöld- um þau. Tvískinnungur Trúverðugleiki í samskiptum við aðrar þjóðir verður seint ofmetinn. Samkvæmni og trúverðugleiki eru tvíburasystur. Þannig þarf mæli- stikan alltaf að vera sú sama, óháð viðskiptalegum, pólitískum eða hernaðarlegum hagsmunum. Reyndin er hins vegar sú að Ís- land, líkt og önnur Vesturlönd, nota mismunandi mælistikur og stundum alls enga. Afstaðan til Kína til ágætt dæmi. Harðstjórn kínverskra kommún- ista undir forystu Maó innlimaði Tíbet formlega árið 1950 og sveik gerða samninga. Allar götur síðan hafa íbúar verið beittir harðræði og sætt ofsóknum. Í ómennskum að- gerðum kommúnista í efnahags- málum, „Stóra stökkinu“ (e. Great Leap Forward) 1958 til 1961, er tal- ið að allt að ein milljón Tíbeta hafi látið lífið. Í menningarbyltingunni 1966 til 1976 voru um sex þúsund munkaklaustur í Tíbet eyðilögð og þúsundir hnepptir í fangelsi. Tíbet er enn undir járnhæl kín- verska kommúnistaflokksins. Jafn- vel mætir leiðtogar frjálsra þjóða þora ekki að eiga fund með Dalai Lama, trúarleiðtoga Tíbeta, af ótta við stjórnvöld í Peking. Þar ráða efnahagslegir hagsmunir ferðinni. Hvað gerum við Íslendingar: Jú, við gerum fríverslunarsamning við Kína og fögnum. Íslenskir stjórn- málamenn segjast síðan ætla að færa málefni Tíbet og brot á al- mennum mannréttindum í Kína í tal við kínverska ráðamenn. Eitt er víst: Allt tal um frelsi Tíbet eða mannréttindabrot í Kína hefur verið sett fram af mikilli hófsemd og virð- ingu – líklegast í framhjáhlaupi í huggulegri móttöku og kokkt- eilboði. Frelsið: Beittasta vopnið Ég hef alla tíð verið andvígur við- skiptaþvingunum nema í ákveðnum undantekningum. Frjáls viðskipti og opin samskipti við þjóðir eru áhrifaríkasta leiðin til að hafa já- kvæð áhrif og tryggja framþróun almennra mannréttinda og frelsis. Og ég verð að játa að ég hef aldrei skilið af hverju leiðtogar lýðræð- isríkja beita ekki beittasta vopni sínu í baráttunni fyrir frelsi og mannréttindum; frelsinu sjálfu. Ef Bandaríkin vilja raunverulega styrkja Úkraínu væri það best gert með því að hefja fríverslun milli landanna, fella niður alla tolla og aðrar hindranir á viðskiptum, að ekki sé talað um að aflétta kvöðum á útflutningi á gasi frá Bandaríkj- unum. Um leið gætu bandarísk stjórnvöld hvatt til umfangsmikilla fjárfestinga í úkraínsku atvinnulífi. Evrópusambandið gæti gripið til svipaðra aðgerða sem styrktu efna- hag og þar með pólitíska stöðu Úkraínu gagnvart yfirgangssömum nágranna. Ísland og Noregur gætu haft forgöngu um að bjóða Úkraínu aðild að Evrópska efnahagssvæðinu til styrkja efnahagsleg og pólitísk tengsl við Vesturlönd. Þannig hafa Vesturlönd það í höndum sér að tryggja efnahags- legan uppgang í Úkraínu á sama tíma og Rússland berst við erfið- leika. Fátt dregur meira úr trausti og trú almennings í Rússlandi á stjórnvöldum í Kreml. Þess í stað hafa viðskipta- þvinganir gefið Pútín og valdaklíku hans pólitískt skjól. Áður en gripið var til þvingana glímdi Rússland við alvarleg vanda- mál vegna lækkandi olíuverðs, spill- ingar og óstjórnar í efnahags- málum. En almenningur kennir ekki Pútín um almenna óáran; hækkandi verðbólgu, hrun rúbl- unnar, verri lífskjör og staðnað efnahagslíf. Vesturlönd eru talin eiga sökina. Þannig hefur Pútín náð að styrkja enn frekar stöðu sína innanlands og um leið dregið mátt úr pólitískum andstæðingum sínum. Varla var það ætlun íslenskra stjórnvalda þegar tekin var ákvörð- un um að fylgja Evrópusambandinu og Bandaríkjunum að málum og tefla tugmilljarða hagsmunum í tví- sýnu? Eftir Óla Björn Kárason »Ég hef aldrei skilið af hverju leiðtogar lýðræðisríkja beita ekki beittasta vopni sínu í baráttunni fyrir frelsi og mannréttindum; frelsinu sjálfu. Óli Björn Kárason Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hverjum er verið að þjóna?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.