Morgunblaðið - 12.08.2015, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 12.08.2015, Blaðsíða 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 12. ÁGÚST 2015 og í Lyon. Tengsl þeirra hjóna við Frakkland voru ætíð mjög sterk. Þegar eftirlaunaaldri var náð festu þau hjónin kaup á húsi í suður Frakklandi þar sem þau bjuggu hluta af árinu og er mér tjáð að þau hafi verið að undir- búa ferð þangað er Hrafn varð fyrir óhappi sem leiddi hann til dauða tæpum tveimur mánuðum síðar. Hrafns er sárt saknað og við hjónin sendum Helgu og fjöl- skyldu innilegustu samúðar- kveðjur frá Lomma, Svíþjóð. Kristján Sigurðsson, fv. yfirlæknir Leitarstöðvar. Hrafn Tulinius nánasti sam- starfsmaður minn við Háskóla Íslands til áratuga er fallinn frá. Við kynntumst áður en ég hóf störf við háskólann, þegar ég kom heim frá framhaldsnámi í byrjun níunda áratugarins. Hrafn var þá kominn heim nokkrum árum áður eftir langa veru við ýmsar lækninga- og fræðistofnanir í mörgum lönd- um. Strax frá fyrstu kynnum, sem voru ljúf og auðveld, naut maður þess að Hrafn var hafsjór af reynslu og þekkingu á gömlu og nýju. Hann kunni þá þegar á tölvur og notaði þær daglega og var manni þannig fyrirmynd. Það var þó fyrst og síðast áhugi okkar beggja á og ástríða fyrir faraldsfræði sem tengdi okkur vina- og fræðimannaböndum. Eftir að ég varð samkennari Hrafns við læknadeild 1987 urðu kynni okkar enn nánari og bar þar aldrei skugga á. Hrafn var vísinda- og fræðimaður, sem leit- aði skýringa á gangi sjúkdóma í mönnum og orsökum þeirra, og það féll vel að forvarnarlækn- ingum. Hann var nákvæmur og vandvirkur í rannsóknum sínum og hann átti auðvelt með að koma hugsunum sínum í orð í greinaskrifum, var málamaður. Hann hafði nóg af reynslu og sjálfstrausti til að taka gagnrýni ritrýna fræðiblaða á handrit sem send voru til birtingar, hvernig sem sú gagnrýnin gat verið, réttmæt eða órökstudd eða ill- skeytt. Allri gagnrýni og að- finnslum svaraði Hrafn af kurt- eisi og hógværð og átti auðvelt með að koma til móts við óskir ritrýna og greiddi úr hvers kyns flækjum. Helstu samstarfsverk- efni okkar voru rannsóknir á hugsanlegri krabbameinshættu meðal flugáhafna. Hrafn lagði sig fram við kennslu læknanema. Hann vand- aði fyrirlestra sína og lagði í þá mikla vinnu og undirbúning. Læknanemar fundu þessa alúð og að Hrafn var þeim hliðhollur og þeir leituðu oft til hans eftir fyrirlestra eða þegar leið að prófum með leiðsögn og útskýr- ingar. Hrafn stýrði Krabbameins- skránni á þann hátt að aðgangur fræðimanna að gögnum til vís- indarannsókna var auðveldur og sjálfsagður. Slíkur aðgangur fór að sjálfsögðu eftir lögum og fengnum leyfum hverju sinni. Þetta sjónarmið Hrafns að Krabbameinsskráin yrði notuð til vísindarannsókna hefur allar götur síðan verið leiðandi, líka þegar í hlut eiga rannsakendur sem ekki eru starfsmenn skrár- innar, krabbameinsfélaganna eða háskólanna. Öll ár, eftir að Hrafn lét af störfum við háskólann fyrir ald- urs sakir, heimsótti hann okkur á Rannsóknastofu í heilbrigðis- fræði og Miðstöð í lýðheilsuvís- indum reglulega. Hrafn hafði alla tíð ljúfmannlega framkomu og var bóngóður, átti auðvelt með að umgangast aðra og fylgdi skoðunum sínum eftir af rökfestu og á leiðbeinandi hátt. Hann var áfram virkur í rann- sóknum og fylgdist með verk- efnum okkar. Þeirrar hvatningar sem áhugi hans og góð ráð voru er minnst með söknuði og þakk- læti. Við Álfheiður eigum ánægju- legar minningar um samveru með þeim hjónum Helgu og Hrafni, einkanlega á vísindaráð- stefnu á Ítalíu fyrir nokkrum ár- um, þá var hásumar eins og nú. Þau hjón voru samrýnd og Hrafn mikil fjölskyldumaður. Við sendum Helgu, börnum þeirra og skylduliði samúðar- kveðjur okkar. Vilhjálmur Rafnsson. Síðla árs 1969, fluttum við Deanne, eiginkona mín, til Lyon þar sem ég var ráðinn til Alþjóða Krabbameinsstofnunarinnar. Hrafn og Helga höfðu verið þar í nokkra mánuði og í ljós kom að fjölskyldurnar tvær voru að fást við áþekk úrlausnarefni. Útlend- ingar voru sjaldséðir í Lyon á þessum árum, ung börn okkar að hefja nám á erlendu máli og áskoranirnar af mörgum toga. Fjölskyldurnar urðu brátt nánar og síðan hafa Hrafn og Helga verið meðal okkar kærustu vina. Við Hrafn tókum þátt í því ævintýri að koma á fót alþjóð- legri vísindastofnun í borg sem var það ekki. Stofnunin skyldi gera sig gildandi í baráttunni gegn krabbameini á heimsvísu. Við Hrafn vorum á faraldsfræði- sviði, Hrafn reyndur meinafræð- ingur en ég tölfræðingur. Það var ljóst að við gátum hvor á sinn hátt lagt sitthvað til starfs stofnunarinnar. Margt af því sem Hrafn fékkst við á árum sínum í Lyon við þróun vísinda- áætlunar stofnunarinnar mark- aði spor. Nefna má mikilsvert framlag hans við nákvæma kort- lagningu tíðni krabbameina í heiminum, eins af kjarnaverk- efnum stofnunarinnar. Einkum skal nefna rannsókn hans á tíðni ógreindra krabbameina í blöðru- hálskirtli sem aðeins finnast við krufningu. Vitnað var til niður- staðna hans í mörg ár eftir að þau birtust. En vísindi og menning voru óaðskiljanleg í huga Hrafns. Fyrir honum var vinnan í Lyon heldur ótengd umhverfi sínu. Hugur og hjarta leituðu heim til að rannsaka faraldsfræði krabbameina hjá eigin þjóð og menningu. Ég naut þeirra for- réttinda að koma til Íslands í nokkur skipti meðan Hrafn, sem enn var staðsettur í Lyon, var að færa meginþunga rannsókna sinna til Íslands. Þessar rann- sóknir vöktu mikla athygli, ekki síst út af sérstökum aðstæðum á Íslandi. Hvergi í heiminum var jafn auðvelt að kortleggja ætt- artengsl langt aftur, en ættgengi krabbameina var einmitt að byrja að koma í ljós. Velmegun hafði nánast hvergi aukist hrað- ar á 20. öld, auk þess sem ná- kvæmar sjúkraskýrslur náðu yf- ir alla öldina. Því var létt að sýna fram á einstaka tíðni krabba- meina í landinu sem auk þess hafði þróast á sérkennilegan hátt. Og þar sem íslenskt sam- félag einkennist af meiri ein- drægni en víða annars staðar, var auðveldara en nokkurs stað- ar í heiminum að meta áhrif nýrra heilsuúrræða á heilar þjóðir, t.d. skipuleg leit að leg- hálskrabbameini. Á síðustu 40 árum hefur fram- lag Íslands til lýðfræðilegra krabbameinsrannsókna verið til muna mikilsverðara en ætla mætti af stærð þjóðarinnar. Hrafn var einn þeirra sem þar lögðu mest af mörkum. Á persónulegri nótum vil ég loks segja að ég verð Hrafni æv- inlega þakklátur fyrir að hafa leitt mig á vit hinna töfrandi bókmennta Íslendinga. Fyrir honum voru bókmenntir og vís- indi hluti af stærri heild. Sem Englendingur hélt ég að menn- ing mín kæmi fyrst og fremst úr grísku og latínu. Hrafn kenndi mér að hið skáldlega í mörgu af því sem hæst rís í enskum bók- menntum á sér djúpa rót í nor- rænum skáldskap. Ég lít á það sem mikil forréttindi að mér skyldi auðnast að eiga Hrafn fyrir vin í næstum hálfa öld. Nicholas Day. Ég þekkti Hrafn einkum sem góðan félaga utan starfsvett- vangs hans – og þó – hann var mér einnig ráðgjafi og þolinmóð- ur leiðbeinandi er við unnum saman að rannsókn á „Algengi krabbameins í skjaldkirtli hjá Íslendingum“. Þar kynntist ég verklagi, nákvæmni og gagn- rýnni hugsun Hrafns, vísinda- mannsins sem jafnframt var þægilegur og hugulsamur vinur. Vinskapur okkar við Helgu og Hrafn í áratugi var traustur og einlægur þótt stundum væri langt á milli funda. Síðustu árin bar fundum okk- ar helst saman þegar lítill vina- hópur sem kallaði sig „Gourmet- klúbbinn“ hittist á heimili ein- hvers úr hópnum og þá var til alls vandað en auðvitað mæddi þetta mest á eiginkonum okkar, þær vildu að kvöldið yrði öllum ánægjulegt. Öll áttum við það sameiginlegt að hafa dvalið lang- tímum saman erlendis við nám og störf. Alvarleg eða spaugileg atvik lífs og lands voru rædd af kappi og einlægni og gjarnan frá sjónarhóli þeirra sem hafa víða farið; Hrafn og Helga höfðu víð- an sjóndeildarhring, þau höfðu dvalið árum saman bæði vest- anhafs og austan og voru athug- ul á umhverfi sitt og lífið þar sem þau dvöldu. Í þessum litla vinahópi var jafnan létt yfir Hrafni, gleði Hrafns var aldrei hávær. Við heimsóttum Hrafn og Helgu í Fitou skömmu eftir að þau eignuðust hús sitt þar; þau voru að vinna við að taka garð- inn í gegn, fjarlægja sumt, gróð- ursetja annað, skapa sinn heim. Á göngu með okkur um Fitou tóku þau einn og annan tali og voru augljóslega aufúsugestir þar sem annars staðar. Dvölin í Fitou var þeim ekki bara „tómstundir“, hér var þeirra annað heimili. Þau Helga og Hrafn voru búin að ráðgera að fara til Fitou en enginn ræður sínu skapadægri. Við Jóna kveðjum góðan vin og vottum Helgu og börnum þeirra Hrafns samúð okkar. Sigurður E. Þorvaldsson. Horfinn er á braut öflugur vísindamaður og samstarfsmað- ur til margra ára. Hrafn Tulinius starfaði hjá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands í 26 ár og við minnumst hans með þakklæti fyrir gott samstarf og ljúfmennsku og jafnframt fyrir þann einstaka neista sem bjó í honum og birtist okkur sem lif- andi og sterkur áhugi á því að efla þekkingu og skilning á or- sökum krabbameina. Hrafn var sérfræðingur í líffærameinafræði og brautryðj- andi á sviði faraldsfræði á Ís- landi. Þótt faraldsfræðin væri á bernskustigi um það leyti sem hann var að sækja sína fram- haldsmenntun og hvergi í boði nein formleg menntun á því sviði, öðlaðist hann mikilsverða þekkingu og reynslu í faralds- fræði krabbameina við störf sín hjá Alþjóðlegu rannsóknarstofn- uninni í krabbameinsfræðum (IARC) í Lyon í Frakklandi á árunum 1969-1975. Hjá IARC tók Hrafn þátt í verkefnum er miðuðu að eflingu krabbameins- skráningar víða um heim ásamt útgáfu og samræmingu upplýs- inga um krabbamein og hóf jafn- framt að rannsaka faraldsfræði krabbameina. Á þessum árum eignuðust Hrafn og Helga góða vini úr hópi framúrskarandi vís- indamanna, auk þess sem Hrafn var einstaklega vel þekktur á al- þjóðavettvangi eins og endur- speglast í þeim fjölda einstak- linga sem hefur spurt okkur um hann og beðið fyrir kveðjur á er- lendum fundum og ráðstefnum. Eftir heimkomuna tók Hrafn við starfi yfirlæknis hjá Krabba- meinsskrá Krabbameinsfélags- ins. Þar var einnig aðstaða fyrir hann til að nýta hinn verðmæta íslenska efnivið til framgangs þekkingar á orsökum krabba- meina og var það mikið lán að hægt skyldi vera að bjóða upp á slíkan vettvang hér á landi, þótt auðvitað væri það af vanefnum miðað við það sem erlendis tíðk- aðist. Einnig var það lán að Hrafn skyldi kjósa að halda áfram rannsóknum sínum á Ís- landi, sem hann gerði í samstarfi við íslenska og erlenda vísinda- menn. Meðan hann var enn í Lyon lagði hann drög að hinu vandaða Ættasafni Krabba- meinsskrárinnar og fékk til þess erlent styrkfé, en þá þegar var kominn alþjóðlegur skilningur á mikilvægi íslenskra gagna- grunna um ættartengsl og krabbamein. Meðal fjölmargra rannsókna Hrafns voru merkar niðurstöður um ættlægni krabbameina í brjóstum og blöðruhálskirtli. Í kjölfarið nýtt- ust bæði ættagrunnurinn og Krabbameinsskráin sem grund- völlur rannsókna íslenskra vís- indamanna sem lögðu mikilvægt lóð á vogarskálarnar í fjölþjóð- legu samstarfi sem leiddi árið 1995 til þess að hægt var að staðsetja BRCA2 genið, sem hefur mikil áhrif á krabba- meinsáhættu. Nú þegar komið er að leið- arlokum er hugur okkar hjá Helgu og öðrum ástvinum Hrafns. Fyrir hönd núverandi og fyrrverandi starfsfólks Krabbameinsskráarinnar vott- um við þeim samúð og sendum kærar kveðjur. Laufey Tryggvadóttir og Jón Gunnlaugur Jónasson. Með vaxandi aldri fylgir að sí- fellt fleiri samferðamenn hverfa af sviðinu. Samt var okkur hjón- unum mjög brugðið þegar við fréttum að vinur okkar og vel- gjörðarmaður Hrafn Tulinius væri fallinn í valinn. Fyrir nokkrum mánuðum höfðum við setið með þeim hjónum í erfi- drykkju og var hann þá hress eins og í gamla daga. Oft leitaði ég ráða hjá honum, þegar ein- hverjir kvillar ásóttu okkur. Ávallt var þá gott að leita ráða hjá honum og hjá hvaða lækni væri vænlegt að leita úrlausnar. Ráðleggingar hans reyndust alltaf vel. Sérstaklega er okkur minnisstætt, að fyrir 35 árum þurfti ég í hjartaðgerð, sem ekki var þá framkvæmd hér á landi. Hrafn benti mér á sjúkrahús í Cleveland í Bandaríkjunum, þar sem frumkvöðlar á því sviði störfuðu, auk þess sem hann út- vegaði mér upplýsingar um áhættu. Ég starfaði fyrir Hrafn í lið- lega aldarfjórðung við Krabba- meinsskrána. Við fórum í marg- ar utanlandsferðir í því sambandi. Í þeim ferðum kynnt- ist ég því hversu mikill heims- borgari hann var án þess þó að meta minna allt sem íslenskt er. Ekki fór heldur fram hjá mér hversu þekktur vísindamaður hann var á alþjóðavettvangi. Hann hafði unnið í mörgum löndum, meðal annars lengi sem vísindamaður við Krabbameins- rannsóknarstöð Alþjóðaheil- brigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Lyon í Frakklandi og ferðast víðsvegar um heiminn á hennar vegum. Þangað bauð hann mér til þess að kynna mér stofnunina og það starf, sem þar fór fram. Einnig útvegaði hann mér þar pláss á stóru námskeiði í nýjustu aðferðum í líftölfræði til úrvinnslu krabbameinsgagna. Ómetanlegt var að kynnast vís- indum og annarri menningu heimsins með aðstoð hans. Eitt sinn hafði Hrafni verið boðið á ráðstefnu um afmörkuð þýði („defined populations“) á Long Island, rétt hjá New York. Hann hafði ekki tök á að mæta og sendi mig í staðinn, þar sem ég reyndi að kynna okkar ein- stæðu skrár yfir læknisfræði- gögn, en honum var vel ljóst hve vísindalega verðmæt þau eru á alþjóðavettvangi. Hrafni var ljóst að til þess að nýta hin verðmætu læknisfræði- gögn okkar, væru tölvur nauð- synlegar og kom því upp tölvum hjá Krabbameinsskránni. Bæði var það vegna Krabbameins- skrárinnar sjálfrar svo og vegna sérstakra rannsókna á ættgengi krabbameina í brjóstum og fleiri líffærum, sem hann stóð fyrir. Áhugi hans beindist einnig að þeim möguleikum, sem samteng- ing skráa býður upp á. Sem dæmi má nefna samtengingu skrár um áhættuþætti hjarta- sjúkdóma úr hóprannsókn Hjartaverndar og Krabbameins- skrárinnar, sem var auðvelt, þar sem ég vann einnig fyrir Hjarta- vernd. Nikulás Sigfússon, yfir- læknir Hjartaverndar, hafði einnig áhuga á málinu og úr varð grein um forspárgildi áhættu- þátta hjartasjúkdóma um krabbamein. Þessa grein er enn vitnað í, þótt hún sé nálega 20 ára. Oft kom fram hversu mikil stoð og stytta Helga ásamt heimilinu var Hrafni í öllum um- svifum hans, enda talaði hann stundum í gamni um að hafa samband við „headquarters“, þegar hann hringdi heim til sín. Við hjónin vottum Helgu og fjölskyldunni innilega samúð okkar. Helgi Sigvaldason. Fallinn er frá merkur vísinda- maður og kær samstarfsmaður okkar til áratuga, Hrafn Tul- inius. Viljum við hér minnast hans og þeirra mikilvægu verka sem hann hefur unnið fyrir læknadeild Háskóla Íslands sem og fyrir íslenskt og alþjóðlegt vísindasamfélag. Hrafn hóf feril sinn við deild- ina sem læknanemi og útskrif- aðist með kandídatspróf í lækn- isfræði árið 1958. Eftir margvísleg læknastörf innan- lands tók við þjálfun í líffæra- meinafræði við Háskólann í Freiburg í Þýskalandi og síðar við meinafræðideild MD Ander- son-spítalans í Houston, Texas, en hann hlaut sérfræðingsleyfi í líffærameinafræði á Íslandi 1966 og í Bandaríkjunum ári síðar. Hann var síðar kennari í meina- fræði við Læknaskólann í Alb- any í New York-ríki í um tveggja ára skeið áður en hann fluttist til Íslands og tók við lekt- orsstöðu í meinafræði við lækna- deild Háskóla Íslands árið 1967. Þaðan var förinni heitið til Lyon í Frakklandi en þar starfaði Hrafn sem meinafræðingur við faraldsfræðideild Alþjóðlegu stofnunarinnar um rannsóknir á krabbameinum (IARC) frá 1969 til 1975 eða þar til hann tók við stöðu yfirlæknis Krabbameins- skrár hjá Krabbameinsfélags Ís- lands. Meðfram því starfi gegndi hann stöðu prófessors í heil- brigðisfræði við læknadeild Há- skóla Íslands frá árinu 1976 til 2001 er hann lét af störfum sök- um aldurs. Sú alþjóðlega reynsla sem Hrafn aflaði sér í gegnum feril sinn og miðlaði síðar til nemenda sinna og samstarfsfólks hér heima var sérstæð og einstak- lega mikilvæg fyrir framþróun þekkingar og eflingar faralds- fræðinnar sem fræðigreinar á Íslandi. Hann sinnti vísinda- störfum af ástríðu og var virkur í alþjóðlegu vísindasamstarfi um margra áratuga skeið. Eftir Hrafn liggja yfir hundrað vís- indagreina sem flestar snúa að faraldsfræði krabbameina og áhrifaþáttum þeirra. Ásamt samstarfsfólki sínu gerði hann mikilvægar uppgötvanir á áhrif- um lifnaðarhátta, þ.á m. neyslu ákveðinna matvæla, og erfða- þátta á tilurð ýmissa krabba- meina. Líkt og forverar hans og samstarfsmenn á borð við Júlíus Sigurjónsson, Níels Dungal og Ólaf Bjarnason var Hrafn braut- ryðjandi og ötull baráttumaður fyrir varðveislu heilbrigðisupp- lýsinga, uppbyggingu gagna- grunna og langtímarannsóknum einkum til að auka þekkingu á áhrifavöldum sjúkdóma á borð við krabbamein. Ásamt því að leggja grunn að efldri Krabba- meinsskráningu á Íslandi, Norð- urlöndunum og annars staðar í Evrópu, kom hann með öðrum á fót Heilsusögubanka sem geymir lífsstílsupplýsingar (reykingar, getnaðarvarnarnotkun, barn- eignir, brjóstagjöf o.fl.) meira en 100.000 íslenskra kvenna sem komið hafa í krabbameinsskoðun á vegum Leitarstöðvar Krabba- meinsfélagsins. Þessi grunnur hefur verið, er og verður, óþrjót- andi uppspretta vísindaverka um áhrif þessara þátta á tilurð og framþróun krabbameina. Framlag Hrafns til lækna- deildar Háskóla Íslands og ís- lensks vísindasamfélags er ómetanlegt. Um leið og við þökkum Hrafni samfylgdina og framlag hans til ofangreindra verka þá sendum við fjölskyldu hans og ástvinum okkar dýpstu samúðarkveðju. Fyrir hönd deildarmanna læknadeildar, Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti, og Unnur Anna Valdimars- dóttir, prófessor og varadeildarforseti. Þegar Hrafn Tulinius flutti heim til Íslands til þess að taka við forystu Krabbameinsskrár eftir magra ára starf við Alþjóð- legu krabbameinsrannsóknar- stofnunina í Lyon færði hann með sér mikla reynslu og þekk- ingu. Hann kunni líka að nýta ein- stakar aðstæður á Íslandi til að byggja upp öflugar rannsóknir á faraldsfræði krabbameina. Þar bar hæst rannsóknir á brjósta- krabbameini. Vel skipulagðar og vandaðar rannsóknir Hrafns á ættlægni þessa sjúkdóms voru síðan kveikjan að stofnun Rann- sóknastofu í sameinda- og frumulíffræði, sem við tvær veittum forstöðu. Þannig var grunnurinn lagður að tveggja áratuga farsælu samstarfi sem lagði drjúgan skerf til þeirrar þekkingar sem menn hafa nú á arfgengri áhættu á brjósta- krabbameini. Við kveðjum Hrafn Tulinius með innilegu þakklæti fyrir hvatningu, lærdómsríka samvinnu og vináttu og vottum Helgu og fjölskyldunni samúð okkar. Helga M. Ögmundsdóttir og Jórunn Erla Eyfjörð.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.